Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dómari í Texas bannar rannsókn á foreldrum transbarna

epa08305184 Texas Governor Greg Abbott holds a press conference to discuss new measures after the first confirmed death in Texas, in Arlington, Texas, USA, 18 March 2020. The first confirmed COVID-19 coronavirus death in Texas occurred a day earlier in Arlington.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH
 Mynd: epa
Með úrskurði dómara verður tímabundið komið í veg fyrir að yfirvöld í Texas í Bandaríkjunum megi rannsaka foreldra transbarna og -unglinga í ríkinu. Dómari sagði reglugerð Gregs Abbott ríkisstjóra fara í bága við stjórnarskrá ásamt því að hún ylli transbörnum og foreldrum þeirra óbætanlegum skaða.

Reglugerðin tók gildi seint í síðasta mánuði og veitti barnaverndaryfirvöldum heimild til rannsóknar á kynleiðréttingarferli ungmenna undir lögaldri. Abbott staðhæfði að samþykki foreldra fyrir slíku jafngilti barnaníði samkvæmt lögum Texasríkis.

ACLU, samtök um borgaraleg réttindi, fögnuðu niðurstöðunni enda væri reglugerðinni beint sérstaklega gegn því að transbörn og -unglingar fengju brýna læknisfræðilega aðstoð.

Samtökin höfðuðu mál fyrir hönd foreldra 16 ára transstúlku snemma í mars. Móðir hennar missti vinnuna og fulltrúar barnaverndaryfirvalda komu á heimilið til að kanna hvort verið væri að „breyta syni þeirra í stúlku,“ eins og það er orðað í málsskjölum.

Ken Paxton dómsmálaráðherra Texas kvaðst myndu áfrýja niðurstöðunni enda væri ætlun dómarans að koma í veg fyrir að rannsóknir á illri meðferð barna eins og hann orðaði það.

Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi reglugerðina og sagði Abbott ríkisstjóra vera í hættulegri herferð gegn transbörnum og foreldrum þeirra.