Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Telur ekki ólíklegt að Pútín lýsi yfir herlögum

epa09815012 Russian President Vladimir Putin attends a videoconference meeting with Government members at the Kremlin in Moscow, Russia, 10 March 2022. The meeting focuses on minimising the impact of sanctions on the Russian economy. Russian troops entered Ukraine on 24 February prompting the country's president to declare martial law and triggering a series of severe economic sanctions imposed by Western countries on Russia.  EPA-EFE/MIKHAIL KLIMENTYEV / KREMLIN / SPUTNIK / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Hákun J. Djurhuus sendifulltrúi Færeyja í Rússlandi segir ekki ólíklegt að Vladimír Pútín forseti lýsi yfir herlögum í landinu á næstu dögum eða vikum. Djurhuus segir ástandið versna í Moskvu dag frá degi.

Djurhuus og fjölskyldu hans var ráðlagt að yfirgefa Rússland og þau lögðu af stað til Færeyja á þriðjudagskvöld. „Aðstæður rússnesks almennings eru orðnar óbærilegar eftir að beiting alþjóðlegra viðskiptaþvingana hófst,“ segir Djurhuus í samtali við Kringvarpið.

„Fjölmargir Rússar hafa lagt á flótta í átt að landamærum Finnlands af ótta við að ástandið eigi enn eftir að versna.“ Skólanum sem börn Djurhuus sóttu hefur verið lokað og því fannst honum tímabært að flytja fjölskylduna í öryggið heima í Færeyjum. 

Með herlögum er átt við að herlið ríkisins taki tímabundið við skyldum og starfsemi hefðbundinna stjórnvalda og fái mikil völd. Oft er gripið til slíkrar löggjafar í tengslum við hernaðarátök innanlands eða milli ríkja. Beiting slíkra laga fylgir oft afnám ýmissa borgaralegra réttinda.  

Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Hákun J. Djurhuus sendifulltrúi Færeyja í Rússlandi

Hann býst við að snúa sjálfur aftur til Moskvu á næstu dögum eða um leið og aðstæður leyfa. Hann segir næg verkefni fyrir sendiskrifstofuna ennþá þrátt fyrir að færeyskir fiskútflytjendur hafi skorið á tengsl við rússneska markaðinn.

Það er hluti þeirra viðskiptaþvingana sem færeyska landsstjórnin lagði á eftir innrás Rússa í Úkraínu. „Auk venjubundinna starfa höfum við fengið beiðnir frá Rússum og Úkraínumönnum sem vilja koma til Færeyja á þessum upplausnartímum.“ 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV