Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um 170 tilkynnt tjón á bílum til Vegagerðarinnar

10.03.2022 - 15:18
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Um 170 ökumenn hafa tilkynnt tjón á bílum til Vegagerðarinnar vegna skemmda í malbiki það sem af er ári. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir langflestar tilkynningarnar vera vegna vega á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir vetrarþjónustu á þeirra vegum í fullum gangi, en hún hafi verið meira krefjandi nú en síðustu ár.

Í myndbandinu hér að ofan má sjá gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar í Reykjavík, þar sem skafl nær inn á akbraut. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir starfsfólk í vetrarþjónustu að störfum linnulaust en gat ekki veitt upplýsingar um hvers vegna skaflar tefji umferð á einni af fjölförnustu stofnbrautum borgarinnar.

Töluvert fleiri tilkynningar um tjón en síðustu ár

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í gær að víða hafi myndast hættulegar holur á stofn- og tengibrautum og tugir bíla hafi skemmst af þeirra völdum.

„Stór hluti af þessu óvenjulega ástandi, er veðurfarið og það þýðir meiri holur. En hluti af skýringunni er auðvitað líka sá að það þarf aukið fé í viðhald. Þó stjórnvöld hafi sýnt því góðan skilning og aukið peninga í viðhald, þá erum við ennþá með svona stóran hala sem varð til eftir hrun. Það tekur mörg ár og áratugi að ná okkur í það horf sem Vegagerðin vill hafa á viðhaldi bundinna slitlaga“ segir Pétur.

Þurfa að vita af skemmd svo tjón sé bætt

Pétur segir Vegagerðina bæta það tjón sem þau beri ábyrgð á, en þá þurfi þeim fyrst að hafa borist tilkynning um þá skemmd á slitlagi sem olli tjóninu.

„Lögin eru þannig að veghaldari ber ábyrgð á holu til dæmis, þegar er búið að tilkynna hana eða veit af henni og hefur fengið eðlilegt svigrúm til að bæta úr. Eftir tilkynningu er um leið farið og fyllt í holuna til bráðabirgða svo hún valdi ekki frekari skemmdum eða hættu. En síðan þegar fer að vora þarf að gera við þetta til frambúðar“ segir Pétur.

Eru þið með langan lista af skemmdum sem bíða viðgerða?

„Já, við höfum verið með þrjá flokka núna af mönnum að gera við þannig við erum bara stöðugt að“ segir Pétur.