Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Yfir 1.700.000 hafa flúið Úkraínu

epa09808414 Ukrainian refugees at the train station in Lviv, western Ukraine, 07 March 2022. According to the United Nations (UN), at least 1.5 million people have fled Ukraine to neighboring countries since the beginning of Russia's invasion on 24 February.  EPA-EFE/VITALIY HRABAR POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Ríflega 1.700.000 manns hafa flúið frá Úkraínu til grannríkja í vestri og suðri, síðan Rússar réðust inn í landið hinn 24. febrúar og minnst 1.200 almennir borgarar hafa farist og særst í átökunum. Flóttamannastofnun og Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna greina frá þessu. Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, telur ekki óvarlegt að áætla að um fimm milljónir flýi Úkraínu á næstu mánuðum ef stríðinu linnir ekki.

Skrifstofa Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna tilkynnti í gærkvöld að staðfestar heimildir væru fyrir því að 406 almennir borgarar hefðu þegar látið lífið vegna stríðsins og 801 særst. Fullvíst er talið að mun fleiri hafi fallið og særst en áreiðanlegar upplýsingar eru af skornum skammti.

Sjá líka: Mesti fólksflótti í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld

Samkvæmt gögnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa minnst 1.735.000 manns flúið Úkraínu frá stríðsbyrjun. Langflest flýja til Póllands í vestri þar sem rétt rúmlega ein milljón flóttamanna hefur fengið skjól. Um 180.000 hafa flúið til Ungverjalands, tæplega 130.000 til Slóvakíu, nær 83.000 til MOldóvu og tæp 80.000 til Rúmeníu en ríflega 180.000 til annarra Evrópuríkja. Þá hafa rúmlega 53.000 flúið til Rússlands.