Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tækifæri glatist vegna skorts á raforku

08.03.2022 - 22:56
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Tækifæri í nýsköpun hafa glatast vegna raforkuskorts, segir fulltrúi í starfshópi á vegum umhverfisráðherra. Ekki hafi verið lagt mat á hversu mikið tekjutap þetta er fyrir þjóðarbúið. „Þannig að við erum að verða af ákveðinni verðmætasköpun um allt landið,“ segir Sigríður. 

Víða á landsbyggðinni er unnið að því að þróa ný atvinnutækifæri eins og ylrækt, kalkþörungaverksmiðju, líforkuver þar sem eldsneyti eru unnið úr lífrænum úrgangi ogiðngarða þar sem nýttur er úrgangur frá stjóriðju. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem starfshópur skilaði umhverfisráðherra í dag. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, er ein þeirra sem skipaði starfshópinn. 

„Það kom mjög skýrt fram í þessari vinnu meðal annars í samtölum og á fundum með landshlutasamtökum sveitarfélaganna að á undanförnum misserum og árum hafa fjölmörg verkefni verið í bígerð og þróun, hvort sem það er matvælaframleiðsluverkefni, verkefni í líftækni, þörungaræktun og ég tek talið lengi áfram, sem hafa því miður ekki náð fram að ganga vegna skorts á raforku eða veikrar stöðu í flutningskerfi raforku. Þannig að við erum að verða af ákveðinni verðmætasköpun um allt landið,“ segir Sigríður. 

Eru þetta einhverjar verulegar fjárhæðir sem við erum að missa af?

„Við höfum ekki metið það en miðað við að útflutningstekjur af grænni orkusækinni iðnaðarstarfsemi er um fjórðungur af útflutningstekjum Íslands, rúmlega 300 milljarðar á ári, þá erum við að verða af ákveðinni verðmætasköpun. En við lögðum ekki fjárhagslegt mat á það hvað þessi glötuðu tækifæri þýða í formi tapaðra tekna fyrir þjóðarbúið,“ segir Sigríður.