Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Íslenskri náttúru yrði fórnað með 125% meiri orkuöflun

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Framkvæmdastjóri Landverndar andmælir því sem kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps umhverfisráðherra, að eigi að ná fullum orkuskiptum fyrir 2040 og halda áfram að auka framleiðslu, verði að afla 125% meiri raforku. „Þetta er spurning um hvaða ákvarðanir við tökum. Með þessari ákvörðun, ef þetta verður úr, þá erum við að taka ákvörðum um að fórna íslenskri náttúru,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Fram kemur í skýrslu sem starfshópur skilaði umhverfisráðherra í dag að til þess á ná fullum orkuskiptum fyrir 2040, eins og ríkisstjórnin stefnir að, og gert verði ráð fyrir að aukin framleiðslu verði í orkusæknum iðnaði þarf að afla ríflega tvöfalt meiri orku en nú er gert eða 125 prósentum. Þessu er Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar ekki sammála.

„Nei, alls ekki. Þetta er spurning um hvaða ákvarðanir við tökum. Með þessari ákvörðun, ef þetta verður úr, þá erum við að taka ákvörðum um að fórna íslenskri náttúru. Ég get ekki ímyndað mér að Íslendingar líti þá ábyrgð sem þeir bera gagnvart íslenskri náttúru, sem er einstök í heiminum, svo léttvæga að þeir séu ekki tilbúnir til að leggja neitt á sig til að vernda hana og forða henni frá eyðileggingu,“ segir Auður.

Vilhjálmur Egilsson, formaður starfshópsins, sagði í fréttum fyrr í kvöld að til þess að ná bæði fullum orkuskiptum og til þess að eiga næga orku í nýsköpun og fjárfestingu þurfi að virkja meira svo unnt sé að bæta lífskjör í landinu. Er Auður ekki sammála þessu?

„Kannski ef eina markmiðið er að auka fjárhagslegt bolmagn þeirra sem ríkari eru, jú, þá kannski. En lífsgæði felast í svo miklu meira. Það eru gríðarleg lífsgæði að hafa aðgang að þessari einstöku náttúru, það eru lífsgæði að geta sýnt vinum sínum erlendis frá þessa einstöku náttúru sem við búum hérna yfir og verða jafnvel fyrir andlegri vakningu af þessari einstöku náttúru, stunda hérna útivist og bæta lýðheilsu með henni. Þannig að ég er alls ekki sammála þessu,“ segir Auður.