Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rúmir níu milljarðar í skimanir vegna covid

07.03.2022 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Kostnaður stjórnvalda við skimun fyrir covid nam 9,2 milljörðum króna frá upphafi faraldurs til loka síðasta árs að frádregnum sértekjum sem komu á móti útgjöldum. Útgjöldin jukust hratt undir lok síðasta árs þegar omíkron-afbrigðið kom til sögunnar og kostuðu skimanir í desember rúmlega 2,1 milljarð króna.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar. Ekki kemur fram kostnaður við skimanir á þessu ári. Stærstur hluti kostnaðar vegna skimana féll til við PCR-próf. Þar næst komu skimanir á landamærum og loks hraðpróf sem tekin voru upp um mitt síðasta ár. 

Gang faraldursins má að nokkru leyti lesa út úr tölunum í svarinu. Kostnaðurinn fór úr 12 milljónum í febrúar 2020 og sveiflaðist í tugum og hundruðum milljóna þar til undir lok síðasta árs þegar alls kyns skimanir kostuðu samanlagt 2.134 milljónir króna. 

Í upphafi féll allur kostnaður til vegna PCR-prófa innanlands. Í apríl 2020 bættist landamæraskimun við. Skimanir vegna sóttkvíar bættust við í september 2020 og skimanir vegna rakningar í janúar í fyrra. Tveimur mánuðum síðar var farið að skima fólk vegna ferðamannavottorða og í júní hófu hraðprófin innreið sína.