Páll er mikill safnari og á meðal annars stórmerkilegt frímerkjasafn. Þá hefur hann safnað allskonar málmmerkjum frá því hann var 5-6 ára gamall og þau skipta þúsundum í dag. Rætt var við Pál í þættinum Sögur af landi á Rás eitt.
Elsta merkið er KA merki sem faðir hans átti
„Af því að ég fann í skúffu hjá föður mínum gömul KA merki. Og síðan hefur þetta bara hlaðið utan á sig,“ segir Páll. „Pabbi spilaði með KA og var í marki á sínum tíma. Og þetta hafði hann fengið einhverntíma og mér tókst að fá það og hef varðveitt þetta sem elsta merkið.“
Stórriddarakross á meðal safngripa
Og í safni Páls er að finna íþróttamerki, fyrirtækjamerki og merki fyrir allskyns viðurkenningar. Meira að segja er þar stórriddarakross frá því fyrir lýðveldi Íslands, sem Páll segir að hafi trúlega gengið mann fram af manni og að lokum lent í höndum safnarans
Skáldin borga fyrir myndatöku með ljóði
En Páll safnar líka ljóðum. Og þau eru öll til komin vegna þess að fyrir mörgum áratugum tók hann upp á því að láta hagmælta viðskiptavini sína á ljósmyndastofunni borga fyrir myndatökuna með ljóði. „Mér finnst afskaplega gaman af þessu. En þetta er kannski eitthvað sem ekki má, að vera í svona vinnuskiptum, því að auðvitað er ekki borgaður af þessu tekjuskattur eða annað. En þetta er nú í gríni auðvitað.“
Kvæði eftir þjóðþekkt skáld sem gætu endað í ljóðabók
Páll á tvær þykkar möppur fullar af þessum kveðskap og þarna eru ljóð eftir þjóðþekkt skáld, sem hann segir að hafi komið til tals að gefa út í ljóðabók. „Því hefur verið velt upp við mig en ég er allavega ekki búinn að gera það.“