Rauðar varir geta, og hafa, þýtt svo margt. Kraft, völd, peninga, sjálfsöryggi, þrá, uppreisn, læti, gleði, dulúð, glamúr, og fleira og fleira. Valdamiklar konur, og karlar, hafa í gegnum tíðina notað rauðar varir til að taka sér meira pláss og konur í uppreisnarhug hafa notað rauðar varir til að virkja baráttuandann og efla samstöðukraft. Því hefur oft verið fleygt að fegurðin sé kvöl en í tilfelli rauðra vara má segja að fegurðin sé dauði, því í árdaga varalitarins og allt fram á 19.öld, var eitt af innihaldsefnunum oftar en ekki hvítt blý, efni sem gat í of miklum mæli valdið eitrun og jafnvel dauða.
Mesópótamía hefur oft verið kölluð vagga siðmenningar enda hófst ritöld þar á tímum Súmera, um 3000 fyrir Krist. En Súmerar þróuðu ekki aðeins eitt elsta ritmálið sem þekkt er, heldur líka fyrsta rauða varalitinn.
Í borginni Úr, við botn Persaflóa, réð drottningin Pu-Abi ríkjum um 2500 f.kr. Gröf þessarar merku drottningar er sú ríkmannlegasta sem fundist hefur frá tímabilinu. Hún hafði meðal annars að geyma höfuðkúpur fimm hermanna og tuttugu og þriggja þjónustumeyja sem höfðu verið drepin með eitri til að þjónusta drottningu sína í næsta lífi. Auk líkamsleifa var í gröfinni að finna gull og gimsteina, kórónu og rauðan varalit. Phu-Abi litaði varir sínar rauðar úr blöndu af hvítu blýi og muldum rauðum steini, og vitað er að súmerska hirðin tók upp þessa tísku því í fjölda grafreita hátt settra súmerskra kvenna hafa fundist rauðir varalitir, náttúruleg krem-blanda sem geymd var í litlum kúptum skeljum.
Tískan fór svo á flug, frá Úr og yfir til þess staðar sem kallast Sýrland í dag, en þar hafa varalitir fundist í gröfum fólks af báðum kynjum. Frá Sýrlandi náði tískan til Egyptalands þar sem bæði karlar og konur af efri stéttum málaðu varir sínar rauðar, því varaliturinn var merki um stétt, og hafði ekkert með kyn að gera á þessum tíma. Rauðar varir merktu fyrst og fremst auð og völd.
Kleópatra lét víst ekki sjá sig án rauðra vara en hennar litur var ekki blandaður úr steinum heldur krömdum skordýrum, vaxi og rauðum jurtalit. Grikkir voru ekki jafn hrifnir af andlitsmálningu og nágrannar þeirra í Egyptalandi, og hvorki karlar né konur af valda-stéttum settu lit á varir sínar. Grískar konur lituðu á sér hárið, en engin kona notaði varalit, nema hún ynni við að selja sig. Vændiskonur notuðu allar rauðan varalit, og það voru meira að segja sett lög sem skylduðu þær til að merkja sig á þennan hátt. Færu vændiskonur út á meðal almennings án rauðra vara var þeim refsað fyrir að reyna að blekkja karlmenn og þykjast vera eitthvað annað en þær raunverulega voru. Þetta viðhorf til andlitsmálningar, það er, að hún þjóni frekar þeim sem horfa en þeim sem hana bera, átti eftir að verða langlíft.