Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rauðar varir tákna völd, dauða og andspyrnu

Mynd: cc / Samsett

Rauðar varir tákna völd, dauða og andspyrnu

05.03.2022 - 08:00

Höfundar

Saga rauða varalitarins er löng og áhugaverð. Rauðar hafa í gegnum tíðina táknað stéttarstöðu, sjálfsöryggi, dauða, dulúð og andspyrnu.

Rauðar varir geta, og hafa, þýtt svo margt.  Kraft, völd, peninga, sjálfsöryggi, þrá, uppreisn, læti, gleði, dulúð, glamúr, og fleira og fleira. Valdamiklar konur, og karlar, hafa í gegnum tíðina notað rauðar varir til að taka sér meira pláss og konur í uppreisnarhug hafa notað rauðar varir til að virkja baráttuandann og efla samstöðukraft. Því hefur oft verið fleygt að fegurðin sé kvöl en í tilfelli rauðra vara má segja að fegurðin sé dauði, því í árdaga varalitarins og allt fram á 19.öld, var eitt af innihaldsefnunum oftar en ekki hvítt blý, efni sem gat í of miklum mæli valdið eitrun og jafnvel dauða.

Mesópótamía hefur oft verið kölluð vagga siðmenningar enda hófst ritöld þar á tímum Súmera, um 3000 fyrir Krist. En Súmerar þróuðu ekki aðeins eitt elsta ritmálið sem þekkt er, heldur líka fyrsta rauða varalitinn. 

Í borginni Úr, við botn Persaflóa, réð drottningin Pu-Abi ríkjum um 2500 f.kr. Gröf þessarar merku drottningar er sú ríkmannlegasta sem fundist hefur frá tímabilinu. Hún hafði meðal annars að geyma höfuðkúpur fimm hermanna og tuttugu og þriggja þjónustumeyja sem höfðu verið drepin með eitri til að þjónusta drottningu sína í næsta lífi. Auk líkamsleifa var í gröfinni að finna gull og gimsteina, kórónu og rauðan varalit. Phu-Abi litaði varir sínar rauðar úr blöndu af hvítu blýi og muldum rauðum steini, og vitað er að súmerska hirðin tók upp þessa tísku því í fjölda grafreita hátt settra súmerskra kvenna hafa fundist rauðir varalitir, náttúruleg krem-blanda sem geymd var í litlum kúptum skeljum. 

Tískan fór svo á flug, frá Úr og yfir til þess staðar sem kallast Sýrland í dag, en þar hafa varalitir fundist í gröfum fólks af báðum kynjum. Frá Sýrlandi náði tískan til Egyptalands þar sem bæði karlar og konur af efri stéttum málaðu varir sínar rauðar, því varaliturinn var merki um stétt, og hafði ekkert með kyn að gera á þessum tíma. Rauðar varir merktu fyrst og fremst auð og völd. 

Kleópatra lét víst ekki sjá sig án rauðra vara en hennar litur var ekki blandaður úr steinum heldur krömdum skordýrum, vaxi og rauðum jurtalit. Grikkir voru ekki jafn hrifnir af andlitsmálningu og nágrannar þeirra í Egyptalandi, og hvorki karlar né konur af valda-stéttum settu lit á varir sínar. Grískar konur lituðu á sér hárið, en engin kona notaði varalit, nema hún ynni við að selja sig. Vændiskonur notuðu allar rauðan varalit, og það voru meira að segja sett lög sem skylduðu þær til að merkja sig á þennan hátt. Færu vændiskonur út á meðal almennings án rauðra vara var þeim refsað fyrir að  reyna að blekkja karlmenn og þykjast vera eitthvað annað en þær raunverulega voru. Þetta viðhorf til andlitsmálningar, það er, að hún þjóni frekar þeim sem horfa en þeim sem hana bera, átti eftir að verða langlíft. 

Mynd með færslu
 Mynd: public domain
Egypska drottningin Nefertiti

Rauðar varir komu og fóru innan efri og neðri stétta en á hinum myrku miðöldum tók kirkjan fyrir allar rauðar varir, þær voru ögrun við fullkomið sköpunarverk guðs almáttugs. Til eru þó nokkur dæmi úr myndlistar-sögunni þar sem sjá má djöfla mála rauðar varir á konur, sem urðu þannig með sínum rauðu vörum eins konar holdgervingar djöfulsins. 

En konur leituðu víst hinna ýmsu leiða með hjálp náttúrunnar til að lita varir sínar. Til eru ítalskar heimildir frá þrettándu öld sem segja frá því hvernig ekki svo guðhræddar efri stéttar konur máluðu varir sínar ljósbleikar á meðan konur af lægstu stéttum máluðu þær í dimmrauðum lit. 

Fram yfir endurreisn og síðar siðaskipti héldu andans menn samt áfram að gagnrýna rauðar varir, nokkuð sem Elísabet Englandsdrottning hin fyrsta, lét ekki mikið á sig fá. Elísabet elskaði rauðar varir og er sagt að hún hafi trúað á töframátt rauða litarins, að hann gæti jafnvel verndað hana fyrir dauðanum. Nokkuð kaldhæðnisleg trú í ljósi þess að á þessum tíma var enn notast við hvítt blý til að blanda litinn. Elísabet var ein af þessum konum sem alltaf báru rauðar varir, og var gerð ódauðleg í málverkum með sitt hvíta andlit og blóðrauðu varir. Og þannig komst varaliturinn í tísku í Englandi, allt þar til næsta mikla drottning, Viktoría, bannaði varaliti með öllu, þar sem rauðar varir væru óheiðarlegar og dónalegar. 

Mynd með færslu
 Mynd: public domain
Elísabet Englandsdrottning hin fyrsta

Með einu pennastriki duttu rauðar varir úr tísku, og urðu að einhverju dónalegu sem ekki mátti sjást á almannafæri. Hugmyndin um óheiðarleika rauðra vara átti eftir að verða langlíf, en þótt rauði liturinn hafi horfið úr almenningsrýminu lifði hann auðvitað góðu lífi á öðrum og ögn myrkari stöðum. Það leið ekki á löngu áður en önnur óhrædd kona steig fram í sviðsljósið með rauðar varir, franska leikkonan Sarah Bernhard. Árið 1880 sást hún á götum Parísar með eldrauðar varir og olli þannig miklum usla meðal prúðra borgara. Rauðar varir voru þannig við upphaf tuttugustu aldarinnar tengdar sjálfstæði, uppreisn og óhlýðni. Nokkuð sem kvenfrelsiskonur tóku eftir og tóku upp.

Mynd með færslu
 Mynd: public domain
Franska leikkonan Sarah Bernhardt

Bandarísku kvenréttindakonurnar Elizabeth Cady Stanton og Charlotte Perkins Gilman gengu með eldrauðan varalit til að ögra körlum og fljótlega varð rauði varaliturinn eitt af tólunum í vopnabúri súfragettanna, beggja vegna Atlantshafs. Tól sem þær notuðu til að undirstrika sig sjálfar. Rauðu varirnar voru valdeflandi tæki notað til að efla sjálfstraust og samtakamátt. 

Sagan segir að þegar hópur bandarískra súfragetta streymdi út á götur New York borgar til að krefjast kosningaréttar árið 1912, hafi snyrtivörframleiðandinn Elisabeth Arden staðið utan við búð sína og gefið þessum eldhugum rauðan varalit á litlum túbum. 

Eftir margra alda boð og bönn, eftir að hafa aðeins sést á öldurhúsum og í skjóli myrkurs, braust rauði varaliturinn nú fram á vörum kvenna sem vildu stjórna sér sjálfar og breytti þannig merkingu sinni aftur, og upp á nýtt. Konur af öllu gerðum og öllum stéttum settu á sig rauðan varalit og kröfðust þess að kjósa.

Síðan þá hafa rauðu varirnar ekki farið neitt og rannsóknir sýna víst að hver sú kona sem á annað borð kaupir sér snyrtivörur, á að minnsta kosti einn rauðan varalit, þó svo að hún noti hann ekki. Og rannsóknir hafa reyndar líka sýnt fram á aðra áhugaverða staðreynd, og það er að sala á rauðum varalit eykst á krepputímum. Það sýna sölutölur, en þetta getur samt enginn almennilega útskýrt. Hvers vegna eyðir fólk í annan eins óþarfa þegar kreppir að? Kannski vegna þess að rauðar varir eru ekki óþarfar?