
Snjóþyngsti febrúar í Reykjavík frá aldamótum
Frá því að mælingar hófust hefur aðeins þrisvar sinnum verið jafn mikill og þrálátur snjór í febrúar í Reykjavík, árin 2000, 1957 og 1925. Alhvítir dagar í borginni voru 24, sem er 12 dögum yfir meðtaltali. Febrúar var einnig snjóþungur á Akureyri en hefur þó oft verið snjóþyngri norðanlands.
„Snjóþyngsli eru alls ekki óþekkt í Reykjavík. Til að mynda var snóþungt í desember 2014, desember 2011 og janúar 2012. Þegar við lítum lengra aftur í tímann má nefna janúar 1993, sem er snjóþyngsti mánuður sem vitað er um í Reykjavík. Einnig voru langir snjókaflar veturinn 1989 og sömuleiðis 1983 og 1984,“ segir í samantekt Veðurstofunnar.
Úrkoma í Reykjavík mældist rúmir 114 millímetrar í febrúar. Það er 27% yfir meðallagi ef horft er til mælinga á árunum 1991-2020. Á Akureyri var úrkoman 98 millimetrar, sem er 88% yfir meðallagi. Aðeins fjórum sinnum hefur mælst meiri úrkoma á Akureyri í febrúar, síðast 2014.
Á fyrstu tveimur mánuðum ársins var úrkoma í Reykjavík 45% meiri en meðalúrkoma á árunum 1991-2020. Á Akureyri mældist hún 23% meiri en áí meðalári.
Sex óveður í febrúar
Febrúar var illviðrasamur og telur Veðurstofan sex óveður í mánuðinum. Verstar voru lægðirnar sem gengu yfir landið 7. og 21. febrúar. Þá voru gefnar út rauðar veðurviðaranir og samgöngur röskuðust verulega um land allt.
- Sjá einnig: Björgunarsveitir sinntu um 100 verkefnum í nótt
- Sjá einnig: Rauðar viðvaranir gefnar út vegna veðurs
Einnig var mjög hvasst dagana 8., 20., 25., og 28. febrúar.
137 veðurviðvaranir
Almannavarnir gáfu út 137 viðvaranir vegna veðurs í febrúar. Í sama mánuði í fyrra voru viðvaranirnar átta. Á yfirlitsmyndinni hér fyrir neðan má sjá að árið 2022 sker sig nokkuð úr.
Tæpum tveimur gráðum kaldara en venjulega
Meðalhiti í Reykjavík var tæpum tveimur gráðum undir meðaltali á árunum 1991-2020 en tæpum þremur gráðum kaldara ef horft er til síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn í febrúar 2,1 gráðu lægri en árin áður.
Á landsvísu var febrúar sá kaldasti frá 2002.