Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Herfylkingin mikla nálgast Kænugarð óðfluga

01.03.2022 - 06:13
epa09792250 A handout satellite image made available by Maxar Technologies shows northern section of convoy southeast of Ivankiv, Ukraine, 28 February 2022. Russian troops entered Ukraine on 24 February prompting the country's president to declare martial law and triggering a series of severe economic sanctions imposed by Western countries on Russia.  EPA-EFE/MAXAR TECHNOLOGIES HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: SATELLITE IMAGE 2022 MAXAR TECHNOLOGIES -- THE WATERMARK MAY NOT BE REMOVED/CROPPED -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - MAXAR TECHNOLOGIES
Fremsti hluti gríðarlangrar fylkingar rússneskra herfarartækja er nú kominn að Antonov flugvelli nærri Kænugarði en aftasti hlutinn er í bænum Prybirsk í 65 kílómetra fjarlægð. Íbúar höfuðborgarinnar búa sig undir að árásir rússneskra herja þyngist mjög.

Gervihnattamyndir sýna að fylkingin mikla eigi nú aðeins 29 kílómetra ófarna að Kænugarði. Rússneski herinn hefur aukið viðbúnað sinn verulega undanfarinn sólarhring einkum í þeim tilgangi að umkringja og hertaka höfuðborgina og aðrar helstu borgir.

Búa sig undir árás

Íbúar Kænugarðs búa sig undir árás búnir byssum og bensínsprengjum á bak við vegartálma. Engin niðurstaða varð af vopnahlésviðræðum stríðandi fylkinga í gær og Rússar létu í kjölfarið sprengjum rigna yfir íbúðasvæði í Kharkiv og víðar um landið.

Stjórnvöld í Moskvu fullyrtu í gær að rússneski herinn hefði náð yfirráðum um gjörvalla Úkraínu. Igor Terekhov borgarstjóri Kharkiv segir brynvarin tæki og skriðdreka umkringja borgina.

Talsverður fjöldi almennra borgara, þeirra á meðal börn, er látinn eftir nóttina. Herstöð nærri Kænugarði stendur í ljósum logum og hörð atlaga var gerð að borginni Kherson í suðurhluta Úkraínu.

Rússneskar hersveitir hafa sett upp vegartálma við helstu leiðir að borginni. Bandaríska geimtæknifyrirtækið Maxar útvegaði gervihnattamyndirnar og segir að sumstaðar sé langt á milli farartækjanna en annars staðar fari þær saman í þéttum hópi.

Sömuleiðis megi greina fjölda hersveita gráar fyrir járnum og skriðdreka handan landamæranna í Hvíta-Rússlandi.   

Eyðilegging í Donetsk

Gríðarmikil eyðilegging blasir við í Donetsk öðru þeirra héraða í austurhluta Úkraínu sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi sem sjálfstæð í aðdraganda innrásarinnar.

Héraðinu hefur undanfarin ár verið stjórnað af aðskilnaðarsinnum hlynntum Rússlandi sem segja eyðilegginguna mega kenna flugskeytaárásum Úkraínumanna.

Hús eru í rúst, brunnin bílflök og brak liggja um allt á götum úti. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að tveir skólakennarar voru bornir til grafar í gær í bænum Horlivka eftir að stórskotaliðsárás varð þeim að fjörtjóni.