Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ekki brotlegur fyrir það eitt að sjá viðkvæm gögn

28.02.2022 - 15:17
Mynd með færslu
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur þegar ákveðið að kæra niðurstöðuna til Landsréttar Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra segir það álit dómsins að blaðamaður verði ekki talinn brotlegur við friðhelgisákvæði hegningarlaga fyrir það eitt að móttaka og sjá viðkvæm persónuleg gögn sem ekki varða almenning. Það sé þáttur í starfi blaðamanna að móttaka ýmis gögn og ábendingar sem þeir meti hvort eigi erindi við almenning

Þetta er meðal þess sem kemur fram í úrskurði héraðsdóms í máli Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, gegn lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra.

Dómurinn komst í dag að þeirri niðurstöðu að það væri ólögmætt af lögreglu að ætla að taka skýrslu af Aðalsteini sem sakborningi í rannsókn vegna gruns um brot á friðhelgisákvæði hegningarlaganna. 

Málið tengist gögnum sem finna mátti á síma starfsmanns Samherja.  

Fjórir blaðamenn voru kallaðir til skýrslutöku sem sakborningar í málinu en þrír þeirra skrifuðu fréttir um svokallaða „skæruliðadeild Samherja.“  Umræddum síma var stolið af starfsmanninum og var þjófnaðurinn kærður til lögreglu sem veit hver komst yfir símann og hvernig. Sá er ekki blaðamaður og hefur enginn tengsl við fjölmiðla.

Í kröfugerð lögreglu kom fram að á símanum hafi einnig verið myndbönd af starfsmanninum í kynlífsathöfnum.  Lögreglan taldi ljóst að gögnum úr þessum síma hefði verið dreift á milli fjölmiðlamanna, þar á meðal hugsanlega umræddum kynlífsmyndböndum. 

Athygli vakti að lögreglan taldi sig vita hver heimildarmaður blaðamannanna væri og gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð þeirra: „Í stað þess að staldra aðeins við og veita heimildarmanninum stuðning og hjálp, virðast fjölmiðlar strax nýta sér augljós brot hans sér í hag.“ 

Lögreglan sagði heimildarmanninn hafa komið til fjölmiðla „á sennilega erfiðasta tímabili lífs síns, væntanlega mjög viðkvæmur og hugsanlega í hefndarhug.“

Héraðsdómur segir það álit dómsins að blaðamaður verði ekki talinn brotlegur fyrir það eitt að móttaka og sjá viðkvæm persónuleg gögn sem ekki varða almenning. „Enda er það þáttur í starfi blaðamanna að móttaka ýmis gögn og ábendingar sem þeir meta hvort eigi erindi við almenning,“ segir í úrskurði hans..  

Héraðsdómur bendir einnig á að þótt réttarstaða sakbornings feli í sér ýmis réttindi við rannsókn máls sé það hvorki „sjálfsögð né léttvæg ákvörðun að veita manni þá stöðu.“ Hún geti haft í för með sér ýmis óþægindi og skaðað orðspor viðkomandi. 

Í úrskurðinum kemur fram að ekki verði ráðið að starfsmaður Samherja hafi leitað til lögreglu vegna þeirra persónulegu myndbanda sem lögregla vísi nú til að séu ástæða þess að Aðalsteinn hafi stöðu sakbornings. Starfsmaðurinn hafi heldur ekki lýst áhyggjum af afdrifum þeirra. 

Þá sé ekki deilt um að þær fréttir sem blaðamennirnir birtu og voru unnar upp úr gögnum úr símanum hafi átt erindi við almenning. Sú háttsemi sæti ekki rannsókn lögreglu.  „Í þeirri umfjöllun var ekkert fjallað um þessi myndbönd eða önnur persónuleg málefni [starfsmanns Samherja].“

Því sé ekkert komið fram sem gefi tilefni til að ætla að umrædd myndbönd eða aðrar persónulegar upplýsingar starfsmannsins hafi farið í dreifingu.  Og af hálfu lögreglu sé ekki getið um aðra refsiverða háttsemi sem Aðalsteinn sé grunaður um. Það sé því „álit dómsins að ekki verði séð að réttmætt tilefni sé fram komið til þeirrar aðgerðar [lögreglunnar] að yfirheyra [Aðalstein] sem sakborning í málinu.“

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur þegar ákveðið að skjóta niðurstöðunni til Landsréttar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV