Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bollusmekkurinn misjafn

28.02.2022 - 19:19
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Það er líklega óhætt að fullyrða að flestir landsmenn hafi haldið upp á bolludaginn í dag með því að fá sér eina bollu eða tvær. Þeir fullorðnu eru margir forvitnir að prófa ýmsar bollunýjungar en hjá yngstu kynslóðinni er mikilvægast að hafa nóg af súkkulaði.

Fullorðinsbollur

Eyþór Gylfason, eigandi Ketilkaffi á Akureyri, bíður upp á heldur óhefðbundnar bollur. „Nú er ég að gera hérna með yuzu og eplum. Yuzu er japanskur sítrusávöxtur. Svo erum við búin að sjóða það saman við eplamauk og sykur til að fá eitthvað skemmtilegt bollubragð.“

Síðustu ár hefur bolluúrval í bakaríum og kaffihúsum landsins stóraukist. Það virðist sem bolluframleiðendum séu engin takmörk sett þegar kemur að því hvað er hægt að setja inn í eða ofan á bakkelsið.

„Jú, jú krakkar eru örugglega tilbúnir í þetta, ég hef enga trú á öðru. En það er vissulega rétt, þetta er kannski meira fullorðins,“ segir Eyþór. 

Súkkulaði númer eitt, tvö og þrjú

Á leikskólanum Pálmholti er boðið upp á aðeins barnvænni bollur, en það er hin dæmigerða sulta, rjómi og svo það mikilvægasta, nóg af súkkulaði.

Lóa Þorvaldsdóttir, aðstoðarmatráður, segir börnin vera hrifin af bollum. „Það er aðallega með glassúr samt. Hann er voða oft bara sleiktur af og bollan skilin eftir.“

Flestir virtust þó smakka bolluna sjálfa. Óliver Baldur Daníelsson, var kominn á bollu númer tvö.  Af hverju ertu bara með súkkulaði? „Ég elska bara með súkkulaði,“ segir Óliver.

Það eru þó ekki einungis sætar bollur sem boðið er upp á í dag og segir bróðir Ólivers, Tristan Bragi Daníelsson, að það hafi verið fiskibollur í hádeginu. Hann segir að þær hafi ekki verið góðar.

Ragnheiður Sara Siguróladóttur fannst rjómabollurnar líka góðar. Það besta við þær finnst henni er rjóminn og súkkulaðið.

Marthen Olsen, leikskólakennari á Pálmholti, segir börn spennt fyrir deginum. 
„Þeim finnst þetta afar skemmtilegt og eru mjög áhugasöm um daginn og eru alltaf að spyrja, af hverju við erum bara að borða bollur í dag og yfirleitt er nóg að svara að það sé bara bolludagur, þau er sátt við það svar.“