Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Olíubirgðastöð og olíuleiðsla standa í ljósum logum

27.02.2022 - 00:52
Mynd með færslu
 Mynd: KYIV POST
Tvær gríðarmiklar sprengingar heyrðust í Kænugarði í kvöld og næturhimininn yfir borginni er sveipaður rauðgulum bjarma. Fregnir herma að olíubirgðastöð nærri bænum Vasylkiv suður af Kænugarði standi í ljósum logum eftir eldflaugaárás. Rússar gera nú harða atlögu að næststærstu borg Úkraínu, Kharkiv í austurhluta landsins.

Vasylkiv stendur 30 kílómetra suður af Kænugarði og þar er stór herflugvöllur og gríðarmiklir olíutankar. Natalia Balasynovych borgarstjóri segir að sprengjum hafi rignt yfir borgina og flugvöllinn.

Olíuleiðsla brennur nú í Kharkiv en Kyiv Independent birt myndskeið sem sýnir svepplaga ský myndast og eldtungur teygja sig til himins.

Loftvarnarflautur ómuðu um Kænugarð í kvöld og óttast er að viðamiklar loftárásir séu yfirvofandi. Fregnir hafa borist af því að rússneskar sprengjuflugvélar séu á leið frá Krímskaga í átt að höfuðborginni.

Sjónarvottar segja að eldflaugum hafi verið skotið að borginni í kvöld og það sem af er nóttu.

Innanríkisráðuneyti Úkraínu hvetur landsmenn til að slökkva á staðsetningarbúnaði síma sinna af ótta við að rússnesk hermálayfirvöld fylgist með hvar fólk safnast saman.

Vitaly Klitschko borgarstjóri Kænugarðs fyrirskipaði almennt útgöngubann sem gildir fram á mánudagsmorgun. Í yfirlýsingu borgarstjórans segir að hver og einn sem er á ferli milli klukkan fimm síðdegis og átta að morgni verði álitinn vera í óvinsamlegum erindagjörðum.