Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þórhildur Sunna fordæmir orð dómsmálaráðherra

26.02.2022 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fordæmir orð Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um að flóttamenn sem neita PCR-prófum tefji fyrir þegar kemur að móttöku fólks á flótta frá Úkraínu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að Íslandi verði reiðubúið þegar kallið kemur um aðstoð.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í viðtali við Mbl.is í gær að íslensk stjórnvöld væru opin fyrir því að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu en að fjöldi hælisleitenda sem er hér á landi tefji fyrir því. Það sé fólk sem hafi verið vísað úr landi en neiti að fara í PCR-próf sem sum ríki krefjast áður en fólk er sent þangað eftir brottvísun.

Þessu andmælir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. „Vegna þess að ég er að horfa í algjörri forundran á það hvernig dómsmálaráðherra Íslands leyfir sér, og ég myndi eiginlega kalla þetta eitt af ógeðfelldari atvikum í íslenskri útlendingapólitík sem ég hef séð,“ sagði Þórhildur Sunna í Vikulokunum á Rás 1. „Hann tekur til máls undir því hvort að við eigum ekki að taka á móti úkraínsku flóttafólki og hendir fyrir sér að það sé hópur af fólki hérna sem lætur ekki brottvísa sér á götuna og guð og gaddinn til Grikklands ef það kemst hjá því og hann beitir þeim gegn fólkinu í Úkraínu og gerir þá einhvern veginn að óvinum þess að við getum aðstoðað fólk í Úkraínu.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði að íslensk stjórnvöld væru farin að undirbúa mögulega móttöku flóttamanna. „Og að sjálfsögðu munum við taka þátt í því og vera þjóð á meðal þjóða þegar kallið kemur.“