Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hressileg sekt fyrir Ólympíumeistarann

epa09776498 Alexander Zverev of Germany in action against Jenson Brooksby of the USA during their match in round of 32 of the Mexican Open tennis tournament in Acapulco, Mexico, 22 February 2022.  EPA-EFE/DAVID GUZMAN GONZALEZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE

Hressileg sekt fyrir Ólympíumeistarann

25.02.2022 - 09:41
Þýski tenniskappinn Alexander Zverev hefur verið rekinn úr keppni á Opna mexíkóska meistaramótinu í tennis og fengið hressilega sekt. Hann barði spaða sínum ítrekað í stól dómara eftir að hafa fallið úr leik í tvíliðaleik.

Zverev keppti í tvíliðaleik á mótinu ásamt Marcelo Melo í fyrradag. Þeir töpuðu leik sínum og var Zverev ákaflega ósáttur við frammistöðu dómarans. Á leið af velli brann algjörlega yfir á Þjóðverjanum og barði hann spaða sínum ítrekað í stól dómarans, sem enn sat í sæti sínu.

Zverev baðst síðar afsökunar en fékk engu að síður refsingu. Hann þarf að borga rúmlega fimm milljónir króna í sekt og missir líka verðlaunafé sitt af mótinu, um 3,8 milljónir. Hann var að auki rekinn úr mótinu og fær ekki að keppa í einliðaleik, en þar átti hann titil að verja.

Zverev er í þriðja sæti heimslista karla í tennis og varð Ólympíumeistari í Tókýó síðastliðið sumar.