Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Engar samkomutakmarkanir lengur

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Öllum samkomutakmörkunum vegna COVID-19 og takmörkunum á landamærum var aflétt á miðnætti. Krafa um einangrun er einnig afnumin en finni fólk til einkenna er það hvatt til að fara í hraðpróf og mælst til að það haldi sig heima.

Skemmtanahald verður með sama hætti og fyrir faraldur og grímuskyldu linnir. Allar takmarkanir á skólahaldi falla einnig niður. Ekki verður lengur boðið upp á PCR-próf. Þess í stað þarf fólk með einkenni að panta hraðgreiningarpróf.

Frá því að faraldurinn skall á hefur heilbrigðisráðherra sett 166 reglugerðir og auglýsingar um ráðstafanir vegna faraldursins. Áfram verður fylgst grannt með stöðu hans hér heima og erlendis. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun sína á miðvikudag með varnaðarorðum til fólks um að fara varlega, gæta að persónulegum sóttvörnum og hafa aðgát finni það fyrir einkennum.

Hann sagði að ákvörðunin um að aflétta takmörkunum hafi verið í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Full samstaða hafi verið um hana í ríkisstjórninni. „Við erum að endurheimta eðlilegt líf en veiran er enn þá með okkur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til ráðherra kom fram að alvarleg veikindi hefðu ekki aukist í takt við mikla fjölgun daglegra smita. Sóttvarnalæknir telur að um miðjan mars muni um 80% landsmanna hafa sýkst af völdum kórónuveirunnar og því nálgist hjarðónæmi óðfluga. 

Útbreiðslan hafi þó valdið miklu álagi á heilbrigðisstofnanir, fleiri liggi inni með COVID-19 auk þess sem veikindi starfsfólks hafi skapað vanda við að halda starfsemi óskertri.