Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bandarískir vörubílstjórar halda í átt að höfuðborginni

epa09779642 A supporter holds a poster as she waits for the People's Convoy to pass near Barstow, California, USA, 23 February 2022. The People's Convoy, which departs today, aim at reaching Washington DC to demand that the 'National Emergency Concerning the Coronavirus Disease 2019 (Covid–19) Pandemic' be lifted.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjöldinn allur af bandarískum flutningabílstjórum og stuðningsmenn þeirra lögðu upp frá Kaliforníu í dag og stefna í átt að höfuðborginni Washington. Tilgangur þeirra er að mótmæla sóttvarnartakmörkunum í landinu.

Svipaðar lestir halda innan skamms af stað annars staðar að úr landinu. Skipuleggjendur „Bílalestar fólksins“ eru andsnúnir grímuskyldu, bólusetningarkröfum og lokunum fyrirtækja.

Allt eru það ráðstafanir sem stjórnvöld hafa gripið til með það að markmiði að hægja á útbreiðslu faraldursins. Fjöldi fólks safnaðast saman við hraðbrautir og brýr á leið lestarinnar til að sýna stuðning við málstað vörubílstjóranna.

AFP-fréttaveitan hefur eftir viðmælendum úr hópi þeirra að meginmarkmið þeirra sé að endurheimta frelsi það sem stjórnarskránni er ætlað að tryggja. Búist er við að það taki bílalestina ellefu daga að ná til Washington en skipuleggjendur segjast ekki ætla að fara inn í borgina sjálfa.

Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að yfirvöld hafa ákveðið að bæta í varðgæslu við borgina með því að kalla til hundruð þjóðvarðliða. John Kirby talsmaður varnarmálaráðuneytisins segir þá ekki verða vopnaða né hafi þeir heimildir til að handtaka fólk.

Hins vegar beri þeim að tilkynna möguleg brot til lögreglu. Stórum farartækjum verður komið fyrir til að loka helstu leiðum að miðborg Washington en stjórnvöld óttast að atburðir 6. janúar 2021 geti endurtekið sig, þegar þinghúsið var tekið herskildi af æstum stuðningsmönnum Donalds Trump fyrrverandi forseta.