Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tap af völdum laxadauða talið nema rúmum milljarði

23.02.2022 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RúV
Norway Royal Salmon, eigandi Arctic Fish sem er með laxeldi í Dýrafirði, áætlar að tap af völdum umfangsmikils laxadauða í eldiskvíum fyrirtækisins nemi um 12 milljónum dollara eða 1,5 milljörðum íslenskra króna. Talið er að um þrjú þúsund tonn af laxi, tilbúnum til slátrunar, hafi drepist.

Þetta kemur fram í frétt IntraFish þar sem laxadauðanum er sagður vera stórslys (e.disaster).

Vitnað er til tilkynningar á vef Norway Royal Salmon.  „Okkar duglega starfsfólk hefur lagt á sig mikla vinnu til að bregðast við þessu á besta mögulega hátt.  Ástandið telst nú stöðugt,“ er haft eftir Klaus Hatlebrekke hjá Norway Royal Salmon.

Upphaflega var talið að um 1,5 til 2 þúsund tonn af laxi hefði drepist en fram kemur í frétt Intrafish að nú sé talið að um þrjú þúsund tonn af laxi, tilbúnum til slátrunar, hafi drepist.

Sláturskipið Norwegian Gannet kom til landsins og var laxi slátrað á fullu til að koma í veg fyrir að meiri fiskur dræpist.

Fram kom í tilkynningu frá Arctic Fish að laxadauðann mætti fyrst og fremst rekja til streitu á fiskinn vegna meðhöndlunar. Þá sagði að þetta myndi hafa áhrif á afkomu fyrsta ársfjórðungs og einng áætlaða framleiðslu þessa árs.

Arctic Fish er með tíu þúsund tonn í kvíum í Dýrafirði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV