Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Alls hafa 186 fundist látnir í Petrópolis

23.02.2022 - 04:00
epa09769867 People carry the coffin of one of the victims of a deadly landslide triggered by heavy rains in Petropolis, Brazil, 18 February 2022. At least 120 people died while dozens were still missing after a mudslide triggered by heavy rains hit the town. Around 850 people were evacuated from their homes.  EPA-EFE/Antonio Lacerda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjöldi látinna eftir flóð og skriðuföll í borginni Petrópolis í Brasílíu er kominn í 186. Vika er síðan ofsaveður með gríðarlegu skýfalli gekk yfir borgina sem er vinsæll ferðamannastaður.

Björgunarsveitir hafa leitað baki brotnu að fólki við mjög erfiðar aðstæður. Lögregla greinir frá því að 33 börn séu meðal látinna. Minnst 69 er enn saknað. 

Heldur fækkar í þeim hópi eftir því sem fleiri finnast látnir. Einnig sameinuðust heilu fjölskyldurnar að nýju þegar dró úr öngþveitinu eftir hamfarirnar. Um 850 hafast enn við í neyðarskýlum í borginni. 

Petrópolis er 300 þúsund manna borg í fögru fjalllendi Ríó de Janeiro-ríkis, rúma 60 kílómetra norður af samnefndri stórborg. Fjöldi bygginga eyðlagðist í skriðunum sem mynduðu stórt skarð í borgina. Fjöldi fólks varð heimilislaus í hamförunum.

Yfirvöld heita viðamiklum hreinsunaraðgerðum til að hreinsa brott leðju, brak úr húsum og ónýt farartæki sem liggja eins og hráviði um alla borg. Óveður hafa gengið yfir Brasilíu undanfarna mánuði og orðið á þriðja hundrað manns að bana.