Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hellisheiði og Þrengsli enn lokuð

22.02.2022 - 08:08
Lokunarskilti yfir Hellisheiði og Þrengsli
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson
Vegir eru víða lokaðir vegna óveðursins sem gekk yfir landið í gærkvöld. Enn eru appelsínugular og gular veðurviðvaranir í gildi um mest allt landið og verða fram eftir degi.

Hellisheiði og Þrengsli lokuð til hádegis

Mjög hvasst er á suðvesturhorninu og færð víða þung. Hellisheiði er lokuð sem og Þrengsli en Vegagerðin metur á hádegi hvort opnað verður fyrir umferð.

Björgunarsveitir fluttu um hundrað manns í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins í Grunnskóla Þorlákshafnar þegar bílar þeirra festust á Þrengslavegi í óveðrinu í gærkvöld.

Mosfellsheiði er lokuð og þar verður staðan metin klukkan tvö í dag. Suðurstrandarvegur er lokaður frá Festarfjalli til Þorlákshafnar.

Á Suðurlandi er hluti af hringveginum lokaður, frá Steinum til Víkur í Mýrdal.