Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Um 60 bílar festust á Sólheimasandi

19.02.2022 - 18:27
Mynd: Eydís Marinósdóttir / Landsbjörg
Björgunarsveitir hafa haft í nægu að snúast í dag vegna þungrar færðar á vegum sunnanlands. Björgunarsveitir voru kallaðar að vegi um Sólheimasand nærri Jökulsá, þar sem um sextíu bílar sátu fastir í snjó.

„Það voru um 60 bílar sem voru fastir, annað hvort fastir sjálfir eða fastir vegna þess að aðrir voru fastir“ Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Landsbjörgu.

„Verkefnin hafa aðallega verið að losa fasta bíla og leysa úr umferðaröngþveiti sem getur myndast þegar eru margir fastir“ segir Karen Ósk. „Svo erum við með fólk í lokunum við heiðar og þess háttar“.

Björgunarsveitir hafi einnig verið kallaðar út vegna drengs sem grófst í snjóflóði. 

Hvassviðri og fannfergi fer illa með ökumenn

Veðrið hefur einnig verið að gera fólki lífið leitt á höfuðborgarsvæðinu í dag, ekki síst ökumönnum. Færðin er víða erfið, sérstaklega í efri byggðum, en spáð er áframhaldandi skafrenningi. Margir ökumenn hafa setið fastir og hafa allnokkrir árekstrar verið tilkynntir til lögreglu það sem af er degi. 

„Þegar snjórinn er svona laus í sér og svona hvasst, þá skefur mikið og þá geta myndast skaflar sem fólk er fljótt að festast í“ segir Karen Ósk.

Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur, segir mikið fannfergi gera áhrif hvassviðrisins umtalsvert meiri en þau væru annars. „Vindurinn er bara það öflugur að þetta er komið út í algert óveður núna á Suðurlandi og verður verra með kvöldinu. Það verður eiginlega bara ófært sunnanlands með kvöldinu“.