Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kosið um sameiningu í þremur sveitarfélögum

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Íslenskum sveitarfélögum fækkar um þrjú, verði sameining samþykkt í þrennum kosningum sem standa nú yfir á Vestur- og Norðurlandi. Kjörstaðir voru opnuðu klukkan tíu og er niðurstöðu að vænta í kvöld.

Kosið er um sameiningu á tveimur stöðum á Norðurlandi, það eru Húnavatnshreppur og Blönduósbær annars vegar og Akrahreppur og Sveitarfélagið Skagafjörður hins vegar. Á Vesturlandi er kosið um sameiningu Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps. Öll eiga sveitarfélögin náið samband sín á milli og sameiningaviðræður staðið yfir síðustu mánuði. Kjörstaðir opnuðu klukkan tíu í morgun en atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hafði þá staðið yfir síðan 25. desember. 

Dreifbýlið í brennidepli á Snæfellsnesi

Hljóti sameining brautargengi á Snæfellsnesi mun nýtt sveitarfélag spanna mestallt sunnanvert nesið og vestur frá Búlandshöfða á því norðanverðu. Á sunnanverðu Snæfellsnesi eru einungis dreifbýli. Þéttbýliskjarnarnir Ólafsvík, Hellissandur og Rif eru allir innan Snæfellsbæjar.

Við viljum styrkja dreifbýlið okkar og með því að sameinast Eyja- og Miklaholtshreppi fáum við meiri heild sem stærra dreifbýli. Við teljum að í framtíðinni muni dreifbýlið styrkjast og við það þá styrkist líka þéttbýlið, segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Þar er sér í lagi litið til skólanna tveggja á sunnanverðu Snæfellsnesi. Lýsuhólsskóli og Laugagerðisskóli eru með undir tuttugu nemendur, hvor fyrir sig og hefur fækkað þar á síðustu árum. 

Það skiptir dreifbýli mestu að það sé skóli á sunnanverðu Snæfellsnesi. Við höfum verið að ræða hvernig við getum séð fyrir okkur að þau verði til framtíðar á svæðinu. 

Og það er fyrirséð að ef af sameiningu verður þá sameinist þessir tveir skólar?

Já, það verður alla vega ein starfsstöð á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

1,9 milljarðar ú jöfnunarsjóði og ný sveitarfélög verða mögulega til í lok maí

 

Verði af sameiningunum þremur mun um það bil einn komma níu milljarðar veitast til sveitarfélaganna úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. 593 milljónir til Snæfellinga, 555 til Húnvetninga og 751 til Skagfirðinga. 

Kjörstöðum er lokað klukkan sex. Fái sameiningarnar brautargengi verða sveitarstjórnir nýrra sveitarfélaga kosnar í sveitarstjórnarkosningum 14. maí og sameinuð sveitarfélög verða formlega til þegar þær taka við, tveimur vikum síðar.