Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tilvalið til útflutnings

Mynd með færslu
 Mynd: Poppbert - Popparoft

Tilvalið til útflutnings

18.02.2022 - 09:41

Höfundar

Popparoft er nýtt verkefni tónvölundarins eina og sanna Róberts Arnar Hjálmtýssonar. Fáir ná jafn góðu jafnvægi í áhlýðilegri en óhefðbundinni popptónlist, segir Arnar Eggert Thoroddsen gagnrýnandi.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Róbert er best þekktur fyrir að hafa leitt merkissveitina Ég sem á að baki nokkrar breiðskífur, nokkrar þeirra skotheldar meistarasmíðar meira að segja. Róbert gerir flestallt sjálfur þegar kemur að tónlistarvinnunni; spilar á hljóðfæri, semur, syngur, tekur upp o.s.frv. Hér er komin breiðskífa með Popparoft og kallast hún hinum langa titli Íslensk tónlist fyrir Ameríkumarkað/Icelandic Music for American Market.

Stíll Róberts er auðþekkjanlegur og má heyra hann hér og í öllu hans lífsverki. Þessi nett sýrða áferð sem minnir á hetjur frá enduðum sjöunda áratugnum. Bygging laga er undurfurðuleg, þau grípa, meika sens, hitta mann í hjartastað en um leið er allt svo dásamlega á skakk og skjön. Svona gera náttúrulega bara snillingar. Hann rokkar, ruglar og er tilraunaglaður - en getur líka verið undurblíður og fallegur („Tíu fingur og tær“ af Lúxus upplifun með Ég. Dásamlegt lag).

Þessi plata er öll meira og minna á þessu rófi. Gaman að heyra Róbert reyna sig við enskuna. „The Sun/Sólin“ hljómar eins og XTC um miðbik níunda áratugarins með dassi af fyrsta ástarsumrinu. Eins og með öll lögin hérna byrjar Róbert að syngja á ensku en skiptir svo í hið ylhýra þegar um helmingur lagsins er eftir. Ekki er það þó algilt og stundum er þetta út og suður. Ég get þulið lög hérna upp endalaust en Róbert hittir líka endalaust á glúrna taug, sjá t.d. hið stórskemmtilega og töfrum slegna „Popcorn/Poppkorn“. Lag eins og „Monotonic/Mónótóník“ gæti verið með einhverri bandarískri neðanjarðarhljómsveit frá fyrsta áratugnum. Svalt og áleitið.
Svo má áfram telja. Þú munt heyra hér popptónlist sem er áhlýðileg en það er nákvæmlega ekkert hefðbundið við hana. Fáir ef einhverjir ná þessu jafnvægi jafn vel og Róbert.

Ég ræddi eitt sinn við Róbert um tónlistina hans, eitthvað sem ég hef gert margsinnis, og hann hafði þá á orði: „Að ég sé ekki heimsfrægur tónlistarmaður, og vinni eingöngu við það, er í raun alger synd.“ Ég er sammála. Þetta árans lífsins lotterí, það fellur ekki alltaf með okkur. En nú er allt opið, enda plata þessi sniðin að Ameríkumarkaði! Heimsyfirráð eða dauði eins og sagt var.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Popparoft - Íslensk tónlist fyrir Ameríkumarkað

Menningarefni

Tveggja heima stilla

Tónlist

Af líkama og sál

Tónlist

Í gotneskri sveiflu