Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bæta þarf í lyfjaeftirlit í íþróttum

Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir / RÚV

Bæta þarf í lyfjaeftirlit í íþróttum

16.02.2022 - 10:24
Enn og aftur er misnotkun á lyfjum í íþróttum komin í brennidepil eftir að að lyf á bannlista greindist í ungum rússneskum keppanda á Ólympíuleikunum. Ekki sér fyrir endann á því máli en það skiptir öllu að hægt sé að treysta því að keppni sé heiðarleg, segir Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands. Hann segir ekki auðvelt að segja hve útbreidd misnotkun lyfja er hér og telur þörf á að bæta í eftirlitið.

Kamila Valieva, fimmtán ára rússnesk stúlka, tekur þátt í einstaklingskeppni í listdansi á skautum á Ólympíuleikunum í Kína. Hún og liðsfélagar hennar, sem keppa undir merkjum rússnesku ólympíunefndarinnar, unnu liðakeppni í listdansi en hafa ekki enn verið veitt verðlaun. Valieva féll nefnilega á lyfjaprófi sem tekið var í Rússlandi á jóladag og niðurstaðan barst rúmlega sex vikum síðar, daginn eftir liðakeppnina. Þrátt fyrir þetta fékk hún að keppa í einstaklingskeppninni í dag og það er umdeilt. Áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að enginn vafi léki á því að í blóði hennar hefði fundist hjartalyfið trimetazidin, lyf sem getur aukið blóðflæði og þol, þá skuli ekki banna henni að keppa vegna þess hve ung hún er.

 

 

epa09759355 Kamila Valieva of Russia performs in the Women's Short Program of the Figure Skating events at the Beijing 2022 Olympic Games, Beijing, China, 15 February 2022.  EPA-EFE/HOW HWEE YOUNG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

 

 Til þess er tekið að niðurstaðan barst mjög seint og það er talið geta valdið henni miklum skaða að banna henni að keppa. Valieva, líkt og aðrir Rússar í Beijing, keppir ekki fyrir Rússland heldur ólympíunefndina eins og áður sagði, einmitt af því að Rússar urðu uppvísir að víðtæku og kerfislægu svindli og lyfjamisnotkun á Ólympíuleikunum í Sotsí. Rússland gat ekki sent fólk til keppni í Beijing. Það má hvorki flagga rússneska fánanum né leika þjóðsönginn en Rússar geta eins og áður sagði keppt undir merkjum ólympíunefndar sinnar. Þeir geta verið búningum í fánalitum Rússlands en ekki merktir landinu.

Stanslaus eltingaleikur

Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands, segir að misnotkun lyfja sé útbreiddur vandi og umfangið ekki alveg þekkt. Þetta sé stanslaus eltingaleikur. Afar miður sé að enn og aftur sé verið að tala um lyfjamisnotkun í stað þess að beina sjónum að íþróttinni. 

Spurningar hafa vaknað, vegna þess hve ung Valieva er, um hver sé ábyrgð íþróttamannsins og hver sé ábyrgð þjálfara og teymis í kringum hann. Hún er talin til einstaklinga sem þurfa vernd vegna æsku sinnar í umfjöllun áfrýjunardómstólsins. Í slíkum kringumstæðum færist ábyrgðin yfir á aðstoðarfólkið, segir Birgir sem telur að mál Valievu snúist einmitt að miklu leyti um það hvar ábyrgðin liggur. Skera þurfi úr um hvort fimmtán ára barn hafi vísvitandi tekið inn árangursbætandi efni án vitneskju nokkurs annars. Ákvæði um einstakling sem nýtur verndar er frekar nýtilkomið, var sett í reglurnar fyrir rúmu ári, og Birgir telur að þetta sé fyrsta stóra málið þar sem á það reynir. Ábyrgð aðstoðarfólksins sé mikil. 

Helmingur lyfjamála snýst um stera

Hjartalyfið sem fannst í sýni Valievu er æðavíkkandi og árangursbætandi, ekki síst í þolgreinum, segir Birgir.  Ekki hefur komið neitt fram um að hún taki það að læknisráði, ef svo væri hefði hún fengið undanþágu. Það eru mjög mörg efni á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins og þau eru öll heilsuspillandi, sem og árangursbætandi. Um helmingur mála sem upp kemur tengist anabólískum sterum en hinn helmingurinn dreifist á öll hin fjölmörgu lyf á listanum. Hann segir að hjartalyf á borð við trimetazidine sé alls ekki hættulaust fyrir þá sem ekki þurfa á því að halda. Skýringar hennar, um að það hafi orðið mengun frá lyfjum sem afi hennar tekur, líta ekki sérstaklega vel út, segir Birgir þó hann vilji ekki kveða upp úr með það.  Ef íþróttamaður getur sýnt fram á að inntakan hafi verið óviljandi er tekið tillit til þess en sönnunarbyrðin sé hans. 

Hægt að svipta fólk verðlaunum eftir á

Þess eru fjölmörg dæmi að verðlaunahafar á stórmótum séu sviptir verðlaunum, segir Birgir. Öll sýni eru geymd og þau jafnvel könnuð löngu seinna og hann nefnir til dæmis boðsveit spretthlaupara frá Jamaíka þar sem upp komst um lyfjanotkun löngu síðar. 

En hversu útbreitt er þetta hér heima?

Því er ekki auðvelt að svara en líkt og víða hefur um 1% sýna sem eru tekin hér reynst jákvætt. Komið hefur verið upp kerfi þar sem hægt er að senda ábendingar um misnotkun lyfja án þess að rekja megi ábendinguna til ákveðins einstaklings og þá eru reglulega gerð lyfjapróf. Í hitteðfyrra, covid-árið, voru færri vísbendingar um misnotkun hér eins og víðast hvar í heiminum enda prófin og íþróttaviðburðirnir færri. Mikilvægast sé þó að fræða og stunda forvarnarstarf. Íþróttafólk þurfi að læra frá unga aldri að það taki tíma að ná árangri. Birgir segir að leggja þurfi áherslu á gildi heiðarlegrar keppni og fólk þurfi að vera stolt af því að það taki tíma að byggja upp árangur og hvíldartími sé hluti af því. Það sé erfitt ef menn hafa á tilfinningunni að án þess að nota lyf heltist þeir úr lestinni eins og hafi sýnst vera raunin í hjólreiðakeppninni Tour de France. Því þurfi að brýna fyrir keppendum, ekki síst þeim yngstu, að ástunda heiðarlega keppni.

 

 

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Engin verðlaunaafhending ef Valieva nær topp þremur

Íþróttir

Banni Valievu hnekkt og hún fær að keppa á morgun

Ólympíuleikar

15 ára féll á lyfjaprófi eftir gull á mánudag

Íþróttir

Rússar ætla að áfrýja banninu