Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Netárás á varnarmálaráðuneyti Úkraínu

15.02.2022 - 17:37
epa07800605 Newly elected deputies take the oath of office during a session of the Ukrainian Parliament in Kiev, Ukraine, 29 August 2019. It was the first parliamentary session following the general elections in the country. Ukrainians took part in the parliamentary elections on 21 July 2019 after President Volodymyr Zelensky dissolved previous parliament during his inauguration on 21 May 2019.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Frá þingsetningu í Kænugarði í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Varnarmálaráðuneyti Úkraínu varð fyrir tölvuárás í dag. Neðri deild rússneska þingsins biðlar til Rússlandsforseta um að viðurkenna sjálfstæði tveggja héraða í Úkraínu. Atlandshafsbandalagið varar hins vegar við þeirri aðgerð.

Neðri deild rússneska þingsins, Dúman, samþykkti í morgun að biðja Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að viðurkenna sjálfstæði tveggja héraða í Úkraínu. Héruðin heita Donetsk og Luhansk, saman eru þau kölluð Donbas. Pútín ræddi málið á fréttamannafundi í Moskvu eftir fund sinn með Olof Scholz, kanslara Þýskalands, fyrr í dag. Þar sagði hann vilja þingmannana skýran og að það væru nokkrir möguleikar í stöðunni til að bregðast við beiðni þeirra. 

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlandshafsbandalangsins, hefur sagt að slíkar sjálfstæðisyfirlýsingar stæðust ekki skoðun. Fræðimenn hafa bent á að sjálfstæðisyfirlýsing Donetsk og Luhansk gæti verið skref í átt að innrás í Úkraínu, sem ráðamenn víða um heim reyna nú með öllum tiltækum ráðum að afstýra. 

Pútín sagðist á áðurnefndum fundi sömuleiðis vilja allt gera til að stilla til friðar. Hann hafi ekki áhuga á að fara í stríð. 

Leiðtogar vestrænna ríkja og NATO hafa tekið með fyrirvara yfirlýsingum Pútíns um að Rússar séu að draga úr viðbúnaði sínum við landamæri Úkraínu. Þeir segja að frásagnir af slíku dugi ekki til, það þurfi að útvega sannanir þess efnis. 

Nú á sjötta tímanum bárust fréttir af tölvuárásum á stofanir í Úkraínu. Varnarmálaráðuneyti Úkraínu og tveir þarlendir bankar eru meðal þeirra sem ráðist var á. Ekki er vitað á þessari stundu hver eða hverjir standa að baki árásunum.