Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Til skoðunar að covid-smitaðir verði kallaðir til vinnu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Til skoðunar er að heimila einkennalausum covid-smituðum heilbrigðis- og umönnunarstarfsmönnum að mæta til vinnu. Þetta segir sóttvarnalæknir. Hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir eiga í erfiðleikum með að manna vaktir. Þrjú hundruð og tveir starfsmenn Landspítala eru í einangrum með covid. 

Alls greindust 1.890 með veiruna innanlands í gær. Sex liggja á sjúkrahúsinu á Akureyri með  covid og 41 á Landspítala, tveir þeirra á gjörgæslu. Þrjú hundruð og tveir starfsmenn Landspítala eru með veiruna og í einangrun. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir vonar að hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir verði ekki óstarfhæf vegna covid-veikinda starfsfólks en erfitt er að manna vaktir. 

„Ég vona svo sannarlega ekki og að stjórnendur hafi ráð til að vinna með það. Nú höfum við verið að tala um heimildir fyrir því hvort það sé hægt að kalla fólk inn sem er greint með covid en er algjörlega einkennalaust, hvort það geti mætt til vinnu. Við erum að vinna það með stofnunum hvort það sé hægt. En það er náttúrulega ýmislegt sem þarf að uppfylla til þess að það sé hægt. Sérstaklega þarf fólk að vera tilbúið til þess að fara í slíkt. En það er ekki komið alveg á endapunkt,“ segir Þórólfur.

 

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV