Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Eminem kraup á kné

Mynd: AP / AP

Eminem kraup á kné

14.02.2022 - 17:00
Fjöldi fólks fylgdist með þegar Los Angeles Rams varð í nótt meistari í NFL-deildinni í amerískum fótbolta. Eminem vakti athygli fyrir að krjúpa á kné en mjög skiptar skoðanir hafa verið um þá líkamsstöðu innan NFL-deildarinnar í gegnum tíðina.

Mikil eftirvænting er alla jafna fyrir leiknum um Ofurskálina, eða Superbowl, eins og úrslitaleikurinn í NFL-deildinni í amerískum fótbolta er kallaður. Og það eru ekki bara úrslitin í íþróttaleiknum sjálfum sem vekja eftirvæntingu. Öllu er alla jafna tjaldað til þegar skemmtiatriði í hálfleik eru annars vegar. Nóttin var engin undantekning. Unnendur rapps og hipphopps fengu sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð þegar Dr Dre, Snoop Dogg, Mary J Blige, 50 Cent, Kendrick Lamar og Eminem stigu á stokk. Brot úr atriðum þeirra má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Eminem endaði flutning á öðru laga sinna með því að krjúpa á kné. Sá gjörningur er ekki alveg óþekktur innan NFL-deildarinnar. 

Fjögur ár eru síðan Colin Kaepernick, þá leikmaður San Francisco 49ers og einn þekktasti leikmaður ameríska fótboltans fyrr og síðar, hóf að krjúpa á kné á meðan þjóðsöngur Bandaríkjanna var spilaður fyrir leiki. Með því vildi hann á táknrænan hátt mótmæla lögregluofbeldi gegn svörtum Bandaríkjamönnum. 

Á meðan margir lofsömuðu Kaepernick og félaga hans fyrir að vekja með afgerandi hætti máls því samfélagsmeini sem ójöfnuður kynþátta er í Bandaríkjunum tóku aðrir uppátækið óstinnt upp. Svo mjög að gjörningurinn varð að pólitísku bitbeini, þar sem Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, var fremstur í flokki þeirra sem gagnrýndu Kaepernick og félaga og sagði þá sýna þjóðinni og föðurlandinu óvirðingu með því að krjúpa undir þjóðsöngnum

Fyrstu fregnir af uppátæki Eminem voru að hann hefði verið beðinn um að gera þetta ekki. En það ku víst vera ofsögum sagt. 

Atriði listamannanna taldi alls 14 mínútur og hér að neðan má sjá listan yfir lögin í þeirri röð sem þau voru flutt. 

  1. The Next Episode - Dr Dre & Snoop Dogg
  2. California Love - Dr Dre
  3. In Da Club - 50 Cent
  4. Family Affair - Mary J Blige
  5. No More Drama - Mary J Blige
  6. M.A.A.D City - Kendrick Lamar
  7. Alright - Kendrick Lamar
  8. Forgot About Dre - Eminem
  9. Lose Yourself - Eminem
  10. Still D.R.E. - Dr. Dre & Snoop Dogg

Los Angeles Rams vann leikinn sem fyrr segir. Rams hafði betur á móti Cincinatti Bengals í leiknum sem var spennandi allt til loka. Lokatölur urðu 23-20. Þetta var í þriðja sinn sem Cincinatti Bengals kemst í úrslitaleikinn, en líkt og árin 1982 og 1989 var niðurstaðan tap.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Los Angeles Rams NFL-meistari á heimavelli