Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Grunur um sviksemi við greiningu PCR-prófa í Svíþjóð

13.02.2022 - 07:17
epa09029613 Asa Wernsten works at the sampling station for covid-19 test at the Arlanda Airport, for Stockholmers who arrive with international flights, Sweden, 22 February 2021.  EPA-EFE/Claudio Bresciani SWEDEN OUT
 Mynd: EPA
Grunsemdir um sviksemi sænska einkarekna heilbrigðisfyrirtækisins Doktorgruppen við töku og greiningu PCR-prófa styrkjast enn. Glæparannsókn stendur yfir, um tuttugu eru grunaðir og nokkrir eru í haldi.

Fyrirtækið hafði starfstöðvar víðsvegar um Stokkhólm höfuðborg Svíþjóðar og bauð upp á próf í tengslum við ferðir fólks úr landi. Talið er að um 35 þúsund próf hafi aldrei eða ranglega verið greind að því er fram kemur í frétt sænska ríkisútvarpsins.

Fjölmargt fólk hafi reynst sýkt af COVID-19 og ferðast um víða veröld í góðri trú um að neikvæð niðurstaða hafi verið réttilega tilkynnt. Fjársvikadeild Stokkhólmslögreglunnar sendi 35 þúsund viðskiptavinum fyrirtækisins tölvupóst í eftirgrennslan sinni.

Deildinni hefur þegar borist tilkynningar frá tvöþúsund þeirra sem telja sig hafa verið hlunnfarna af Doktorgruppen. Fyrirtækið hafði öll tilskilin leyfi og krafði hvern og einn um jafnvirði 20 þúsund króna fyrir sýnatökuna.

Starfseminni hefur verið lokað en allir grunaðir í málinu neita sök. Lögregla hefur lagt hald á 10 milljónir sænskra króna úr sjóðum fyrirtækisins. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV