Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stefna að íbúðabyggingu á Skagaströnd

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sveitarfélagið Skagaströnd og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf til að fjölga íbúðum á Skagaströnd. Sveitarstjóri segir húsnæðisskort standa íbúafjölgun fyrir þrifum.

„Erfitt að byggja úti á landi“

Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd, segir að með undirritun viljayfirlýsingarinnar séu fyrstu skref tekin varðandi uppbyggingu húsnæðis í bænum. Skortur hefur verið á húsnæði en þrátt fyrir það hefur nánast ekkert verið byggt síðustu ár.

„Ég held að það sé alltaf erfitt að byggja úti á landi af því að markaðsverðið er talsvert lægra en byggingarkostnaður og því er svo mikilvægt að fá HMS með okkur inn í þessa vegferð, til þess að við getum nýtt þessi úrræði sem þau hafa inni í þessu verkefni sem heitir Tryggð byggð hjá þeim sem er samstarfsverkefni á milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sveitarfélaga á landsbyggðinni um uppbyggingu á húsnæði,“ segir Alexandra.

Háleit markmið í sveitarfélaginu

Alexandra segir háleit markmið og áætlanir fyrir uppbyggingu á ferðaþjónustu vera í sveitarfélaginu. „Meðal annars með byggingu á sjóböðunum hér við Hólanesið. Það er bara orðið þannig að við nauðsynlega þurfum að fara að bæta við okkur húsnæði til að geta fjölgað íbúum, og þetta snýst allt um það að íbúum Skagastrandar fjölgi.“

Alexandra segir að það fari eftir áhuga á verkefninu hversu langan tíma taki að byrja á raunverulegum framkvæmdum. 

„Ef við getum fengið verktaka strax þá erum við með tilbúið deiliskipulag með lóðum sem hægt er að nýta í þetta verkefni. Þannig að skipulagsvinnan tekur stuttan tíma. Það er hægt að fara ansi hratt af stað ef við fáum viljuga menn til verka,“ segir Alexandra.