Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lögregla færði manneskju af vettvangi

12.02.2022 - 18:11
Mynd: Emils Linga / Emils Linga
Eldur kviknaði síðdegis í 60 fermetra sumarbústað í nágrenni við Lynghólsveg og Nesjavallaveg fyrir utan Reykjavík. Húsið var alelda þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom á staðinn rétt fyrir klukkan fimm. Sjónarvottur sagði fréttastofu að hann hefði fyrst séð reyk stíga upp af bústaðnum síðan hefði verið eins og sprenging yrði í honum. Lögregla færði manneskju af vettvangi, að því er virtist í handjárnum.

Slökkviliðsmönnum af tveimur stöðvum slökkviliðsins gekk vel að slá á eldinn í sumarbústaðnum en ekki hefur tekist að slökkva hann. Það gerir mönnum erfitt fyrir að langt er í vatn sem hægt er að nota til slökkvistarfsins. Því hafa tankbíll og dælubíll verið notaðir til að sækja vatn til slökkvistarfsins. Varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins gerir ráð fyrir að slökkviliðsmenn verði á staðnum eitthvað fram á kvöld.

Sjónarvottur sem fréttastofa ræddi við sagði að fyrst hefði reyk lagt upp af sumarbústaðnum en síðar hefði orðið sprenging í honum.

Lögregla sást fjarlægja eina manneskju af vettvangi og virtist hún vera handjárnuð þegar hún var sett inn í lögreglubíl. Ekki hefur náðst í lögreglu til að fá upplýsingar um hvers vegna afskipti voru höfð af manneskjunni.

Uppfært 19:25 Sigurkarl Gústafsson lögregluvarðstjóri sagði í kvöldfréttum að enginn hefði verið handtekinn að svo stöddu. Hann sagði að húsið væri gjörónýtt. Sigurkarl sagði upptök brunans vera í hættu og að ekki væri vitað hvort einhver væri í hættu, hann sagði að ekki væri vitað hvort einhver væri inni í húsinu en það væri í rannsókn.

Mynd með færslu
 Mynd: Emils Linga
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir