Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fimm frökk á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Alexa Iscius - Dragon New Warm Mountain I Belie

Fimm frökk á föstudegi

11.02.2022 - 16:10

Höfundar

Ágætis vika í útgáfunni fyrir þá sem hafa fulla trú á konseptinu plata en bæði alt-J og Big Thief gefa út nýjar plötur í dag. Önnur með nýja tónist að þessu sinni eru Disclosure og Zedd, Röyksopp ásamt Alison Goldfrapp og krúttið hún Arlo Parks.

Disclosure, Zedd - You've Got Let Go If You Want To Be Free

Hústónlistarrisarnir Disclosure og Zedd eru með vinsælustu EDM-poppstjörnum heimsins og sendu frá sér dansslagarann You've Got Let Go If You Want To Be Free í lok janúar. Lagið er eins og við var að búast virkilega dansvænt en þetta er í fyrsta skipti sem þessir meistarar vinna saman.


Röyksopp, Alison Goldfrapp - Impossible

Meira rafmagn kemur frá norsku Röyksopp-köppunum Svein Berge og Torbjørn Brundtland sem voru að senda frá sér slagarann Impossible sem þeir unnu með Alison Goldfrapp. Lagið er hluti af nýjasta verkefni Norðmannanna Profound Mysteries sem er ekki hefðbundin plata því þeir hættu að trúa á plötuna sem konsept á árinu 2014.


Arlo Parks - Softly

Nýja lag Arlo Parks Softly er svona millibilsástand segir hún, en plata hennar Collapsed in Sunbeams þótti ein allra besta plata síðasta árs og er útnefnd til Grammy-verðlauna sem besta alternative platan. Softly verður sem sagt ekki að finna á eiginlegri plötu en ætti að halda aðdáendum Arlo Parks við efnið.


alt-J - The Actor

Þá snúum við okkur í eina af útgáfum dagsins sem er fjórða plata sveitarinnar alt-J - The Dream en tríóið vill meina að hún sé tilraunakennd og spennandi og þeir vaxi með hverri plötu. Heil yfir fær platan fína dóma þannig að eitthvað hafa Leedsararnir til síns máls.


Big Thief - Simulation Swarm

Það hefur verið gríðarleg spenna eftir fimmtu plötu Big Thief sem kemur út í dag og er með indíelegasta nafn í heimi Dragon New Warm Mountain I Believe in You. Það er kannski vel við hæfi að hafa þetta smá tilgerðarlegt hjá þessum hressu krökkum sem eru ekkert sérstaklega góð í að klæða sig en hver þarf að geta það þegar maður gerir hvert meistarastykkið á fætur öðru.


Fimman á Spotify