Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Aðdáunarvert samstarf í aðgerðum á Þingvallavatni

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Mögulega þarf að bíða í nokkra mánuði með að hífa flugvélina sem hrapaði ofan í Þingvallavatn í síðustu viku upp úr vatninu. Þykkur ís lagðist á vatnið í nótt og tóku viðbragðsaðilar þá ákvörðun að fresta aðgerðum þar til aðstæður verða öruggar. Vatnið er verulega kalt og þarf mikið til að hita það upp að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. „Ég geri mér bara ekki grein fyrir því hvort við erum að tala um vikur eða jafnvel mánuð eða mánuði,“ segir Oddur.

„Við settum borholumæli niður í vatnið í gær og hitinn er á bilinu 0,1 til 0,2 gráður og virðist vera þannig niður á botn,“ segir Oddur. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bíður gagna úr flugvélinni til að halda rannsókn sinni á slysinu áfram. Inni í vélinni eru til að mynda neyðarsendir vélarinnar. Oddur segir að fyllsta öryggis verði gætt við að ná gögnunum. „Við munum gera það þannig að skaðinn verði sem minnstur á þeim gögnum sem við erum að sækja og eins viljum við tryggja að lífríkið verði ekki fyrir tjóni.“

Oddur á vart orð yfir samvinnuna við aðgerðirnar á Þingvöllum. „Ég hef ekki á mínum ferli séð jafn smurða vél, og ég held að árangurinn sem við erum að sjá hérna og sáum í gær, hann helgist bara af því hvað þetta hefur gengið vel.“ Alls hafa eitthvað á annað þúsund manns komið að aðgerðunum, bæði við leitina að vélinni og við að koma hinum látnu upp úr vatninu.

Aðgerðin á Þingvöllum er með þeim allra stærstu sem Oddur hefur tekið þátt í. Hann segir aðgerðina ganga vel af því að menn eru að vinna vel saman. „Allir, sama hvað það heitir, Landsbjörg, Brunavarnir Árnessýslu, Landhelgisgæslan, einkaaðilar á borð við Köfunarþjónustuna og Sjótækni sem komu hér með tæki og búnað, og sérsveit ríkislögreglustjóra með sinn búnað, þetta er bara aðdáunarvert.“

Oddur fer á fund rannsóknarnefndar samgönguslysa á þriðjudag. Þá verður lögð fram áætlun um hvernig skuli koma flugvélinni upp úr Þingvallavatni. Áætlunin verður svo virkjuð þegar aðstæður leyfa. Viðtalið við Odd má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.