Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir að bönkum beri að létta undir með skuldurum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðskiptaráðherra segir að bönkunum beri að létta undir með heimilum og fyrirtækjum með því að greiða niður vexti. Geri þeir það ekki segir ráðherra ekki útlokað að endurvekja bankaskattinn. Ofurhagnaður banka aukist enn með hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.

Morgunblaðið hefur þetta eftir Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra í dag sem segir samfélagslega ábyrgt af bankakerfinu og fjármálastofnunum að styðja við samfélagið á leið þess út úr heimsfaraldrinum.

Sérstaklega þurfi að horfa til þeirra heimila sem mest skulda enda sé vaxtabyrði þeirra þyngst. Hún nefnir ferðaþjónustufyrirtæki einnig enda hafi þau komið illa út úr faraldrinum.

Vaxtamunur segir Lilja að sé orðinn of mikill í landinu en álítur líklegt að meiri vaxtahækkanir séu framundan og því þurfi bankarnir að bregðast umsvifalaust við.

Einkum þurfi að sjá til þess að heimili ungs fólks og tekjulágra sitji ekki eftir með Svarta Pétur eins og hún orðar það.

Lilja nefnir máli sínu til stuðnings skattlagningu ríkisstjórnar Margaretar Thatcher á bresk fjármálafyrirtæki snemma á níunda áratugnum og umleitan franskra stjórnvalda til orkufyrirtækja nýverið um að lækka orkuverð til að hefta verðbólgu.