Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mílufrumvarpið orðið að lögum

10.02.2022 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, alltaf kallað Mílufrumvarpið, var samþykkt sem lög frá Alþingi í hádeginu með 33 atkvæðum, 15 þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Með samþykkt frumvarpsins er fjarskipalögum, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri breytt. Þetta er gert vegna kaupa erlendra aðila á Mílu og þar með innviðum fjarskiptakerfisins sem Síminn átti áður. Yfirlýst markmið var að tryggja þjóðaröryggi þegar kæmi að innviðum með því að stjórnvöld gætu sett kvaðir á eigendur þeirra. 

Kaup franska fjárfestingafyrirtækisins Aridan á Mílu fyrir 78 milljarða króna vakti miklar umræður og nokkurn ugg. Málið var rætt í þjóðaröryggisráð og ráðist var í lagabreytingar. Áslaug Arna sagði þá að með frumvarpinu ætti að treysta og tryggja lagastoð um fjarskipti með tilliti til þjóðaröryggis. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðu um frumvarpið að það væru rauð flögg víða í málinu og að öryggi neytenda væri ekki tryggt með lagasetningunni.

Atkvæði féllu eftir flokkslínum. 33 þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu. Stjórnarandstæðingar greiddu ekki atkvæði.