Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Krefjast svara um skjöl Trumps

10.02.2022 - 16:31
epa09550504 The sun rises on the House of Representatives and the Capitol dome as preparations for the arrival of President Biden are underway in the US Capitol in Washington, DC, USA, 28 October 2021. President Biden will be meeting with House Democrats to finalize a framework for his Build Back Better plan.  EPA-EFE/SHAWN THEW
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings.  Mynd: EPA
Eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hóf í dag rannsókn vegna gruns um að fyrrverandi Bandaríkjaforseti hafi brotið lög um geymslu skjala. Guardian greinir frá þessu. Donald Trump er grunaður um að hafa haldið eftir og eyðilagt fjölda skjala sem varða innrásina í þinghúsið í fyrra.

Nefndin óskar eftir upplýsingum frá bandaríska þjóðskjalasafninu um samskipti þess við Trump. Forsetanum ber að skila gögnum er varða embættið til safnsins. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvað var í kössum sem sóttir voru í setur forsetans fyrrverandi í Mar-a-Lago í síðasta mánuði. New York Times kveðst hafa heimildir fyrir því að í kössunum hafi verið upplýsingar sem þjóðskjalasafnið telur leynilegar. Þar að auki hefur bandaríska blaðakonan Maggie Haberman eftir starfsfólki í Hvíta húsinu í nýrri bók sinni að salerni Hvíta hússins hafi ítrekað verið stífluð. Þegar betur var að gáð var búið að troða útprentuðum pappír ofan í þau, og reyna að sturta niður.

Carolyn Maloney, formaður eftirlitsnefndarinnar, skrifar í bréfi sínu til þjóðskjalasafnsins að það sé glæpsamlegt að fjarlægja eða fela gögn hins opinbera. 

Þjóðskjalasafnið komst nýverið að því að minnst fimmtán kassar af ýmis konar gögnum og munum úr Hvíta húsinu hafi fundist í setri Trumps í Mar-a-Lago. Meðal þess sem sagt er hafa verið þar eru bréfin sem Trump fékk frá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, bréf sem Barack Obama, forveri Trumps, skildi eftir handa honum, og líkan af nýju útliti einkaflugvélar forsetans.

Trump sagði sjálfur í yfirlýsingu að eftir uppbyggilegt samtal við þjóðskjalasafnið hafi gögnin verið flutt í samræmi við lög um geymslu skjala forsetaembættisins.

Nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar innrásina í þinghúsið 6. janúar í fyrra hefur lengi óskað eftir gögnum úr Hvíta húsinu. Trump vildi halda aftur af gögnum, en átta af níu dómurum hæstaréttar staðfestu dóm lægri dómstóls um að þjóðskjalasafninu bæri að afhenda nefndinni gögnin. Þar á meðal eru dagbók forseta, innskráningar gesta í Hvíta húsinu, drög að ræðum og handskrifuð minnisblöð.