Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Búast við að fresta þurfi aðgerðum til morguns

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Viðbúið er að fresta þurfi aðgerðum við Þingvallavatn til morguns. „Úti á vatninu er ísinn það þykkur að prammi sem á að nota getur ekki farið um með tryggum hætti. Spáin er þannig að það á að byrja að blása fljótlega og þá mun ísinn byrja að brotna upp. Þá verður farið í að gera það sem stóð til að gera í morgun,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. „Mér finnst líklegt að það frestist allar aðgerðir til morguns,“ segir Oddur.

Oddur segir að allt þurfi að ganga upp til þess að unnt sé fyrir kafara til að kafa niður í Þingvallavatn. Áhersla sé lögð á að ná þeim sem fórust með flugvélinni á fimmtudaginn fyrir viku um leið og það er fært. Ef það frestast til morguns verður líklega beðið til laugardags með að ná flugvélinni upp úr vatninu. 

Þannig að þið þurfið að bíða fram yfir hádegi með að undirbúa og koma prammanum út á vatnið?

„Já, við erum að sækja okkur sérstaka pramma til að brjóta ísinn til að halda rás opinni til að vindurinn nái í ísinn til að brjóta hann hraðar,“ segir Oddur. „Það er verið að bregðast við þessu eins og öðru sem kemur upp á. Við erum örugglega á þeim stað að það muni fleira tefja okkur,“ segir Oddur. 

Betra sé að nýta dagsbirtuna til aðgerðanna. Hörkufrost var á Þingvöllum í nótt. Klukkan fimm í morgun mældist þar 20,5 stiga frost.

„Við svo sem vissum að frostið yrði svona mikið. Það fylgir stillunni sem við vildum nota. En þar með gerist þetta. Vatnið er að dansa í tæpri einni gráðu og jafnvel við núllið og þá er það fljótt að leggja,“ segir Oddur.

Viðbúið er að 50 manns taki þátt í aðgerðum á staðnum, þar af 22 kafarar.

„Það eru allir klárir hérna á staðnum og tilbúnir til að gera og græja eins og þarf,“ segir Oddur.