Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hálf milljón dauðsfalla af völdum COVID frá í nóvember

epa09738632 An Iranian woman receives the Covid-19 vaccine in a vaccination station at the Iran Mall shopping centre, in Tehran, Iran, 08 February 2022. Iranian government asked the nation to speed up to get the booster vaccination to build a herd immunity against the significant increase in Sars-CoV-2 Omicron variant cases. The infection of Omicron is getting high in recent days, as the booster vaccine just for some business like shop keepers and government employees are mandatory.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir 130 milljónir nýrra kórónuveirutilfella hafa greinst um heim allan frá því að omíkron-afbrigðið skaut upp kollinum í nóvember. Um hálf milljón hefur látist af völdum sjúkdómsins síðan þá.

Abdi Mahamud, sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segir þessar tölur þyngri en tárum taki. Omíkron-afbrigðið er nú ráðandi á heimsvísu og hefur þar með tekið við af delta-afbrigðinu. 

„Þótt alkunna sé að að omíkron valdi síður alvarlegum veikindum gleymist þó í umræðunni að hálf milljón hefur látist frá því það var uppgötvað,“ segir Mahamud. Í ljósi viðamikilla bólusetninga sé sá fjöldi afar mikill.

Maria Van Kerkhove, einn helsti sérfræðingur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í vörnum gegn COVID-19 segir fjölda smita af völdum omíkron vera yfirþyrmandi en kveðst óttast að rauntölur, bæði varðandi smit og andlát kunni að vera enn hærri. 

Hún segist vonast til að fljótlega sjái fyrir endi á faraldrinum en ljóst sé að hann geisi enn af miklu afli víða um heim. „Víða um lönd hefur hámarki útbreiðslu omíkron ekki enn verið náð,“ segir hún og áréttar að kórónuveiran sé enn hættuleg fólki. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fylgist grannt með fjórum undirgerðum omíkron-afbrigðisins. Sú gerð sem ber undirheitið BA.1 hefur verið ráðandi en BA.2 er mun smithæfari og því þykir sérfræðingum líklegt að henni megi kenna um fjölgun tilfella. 

Van Kerkove segir engar vísbendingar um að fólk veikist verr af BA.2 en BA.1 en áréttaði að enn væri skammt liðið á gagnasöfnun og rannsóknir á því. Mahamud bætir við að enn sé ekki vitað hvort mögulegt sé að smitast af báðum undirgerðunum samtímis. 

Frá því að faraldurinn hófst í desember 2019 hafa 5,75 milljónir manna fallið í valinn af völdum hans að því er fram kemur í samantekt AFP-fréttaveitunnar. Yfir tíu milljarðar skammta af bóluefni hafa verið gefnir um heim allan.