Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Peng Shuai segir ásakanir um kynferðisbrot misskilning

epa09735830 A man reads the French daily sports  newspaper L'Equipe with Chinese tennis player Peng Shuai on the cover, while sitting a cafe terrace in Paris, France, 07 February 2022. Shuai gave an interview to L'Equipe newspaper stating there was a "huge misunderstanding" over a post she made in November 2021 in which she claimed she was forced into a sexual relationship with a Chinese party official. Following her post, she disappeared from public view for three weeks.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Peng Shuai segir ásakanir um kynferðisbrot misskilning

07.02.2022 - 15:36
Kínverska tenniskonan Peng Shuai, sem hvarf vikum saman í haust eftir að hafa sakað hátt settan mann um kynferðisbrot, segir í blaðaviðtali að færslan með ásökuninni hafi verið misskilin. Óttast er að kínversk stjórnvöld komi í veg fyrir að hún tali opinskátt um málið.

 

Peng Shuai setti langa færslu inn á kínverska samfélagsmiðilinn Weibo í byrjun nóvember. Þar skaði hún Zhang Gaoli fyrrverandi varaforseta Kína um að hafa þvingað sig í kynlíf heima hjá honum. Færslunni var eytt klukkustund síðar og ekkert spurðist til Peng vikum saman.

Peng veitti viðtal við franska dagblaðið L'Equipe og sagðist aldrei hafa gefið í skyn að brotið hefði verið á henni kynferðislega. Þetta hefði verið einn stór misskilningur. Hún hefði sjálf eytt færslunni að eigi frumkvæði. Peng var ekki spurð hvað hún hefði þá í raun meint með færslunni. Hún sagðist lifa eðlilegu lífi en gaf í skyn að ferill hennar sem atvinnumaður í tennis væri á enda. 

Fréttamaður breska ríkisútvarpsins í Kína segir viðtalið hafa verið eins konar áróðurstæki. Blaðið þurfti að senda spurningar fyrirfram og forsvarsmaður kínversku ólympíunefndarinnar var viðstaddur, og sá um að túlka það sem Peng sagði. Þá hafi blaðið samþykkt að birta aðeins svör hennar við beinum spurningum, en ekkert úr samtölum sem áttu sér stað utan þess. Viðtalið skilji í raun eftir fleiri spurningar en svör.

Kvennadeild alþjóðatennissambandsins hefur gagnrýnt Ólympíuhreyfinguna fyrir að taka ekki á málinu og hefur hætt við allt mótahald í Kína vegna málsins. Ólympíuhreyfingin hefur reyndar almennt verið gagnrýnd fyrir að láta ekki mannréttindabrot kínverskrar stjórnvalda sig varða, en vetrarólympíuleikarnir fara þessa dagana fram í Peking.

 

Tengdar fréttir

Asía

Peng þvertekur nú fyrir ásakanir um kynferðisofbeldi