Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Neyðarástandi lýst yfir vegna mótmæla í Ottawa

Trucks attempting to drive down University Avenue between Bloor Street and Queen's Park are blocked by a police cruiser during a demonstration in support of a trucker convoy in Ottawa protesting COVID-19 restrictions, in Toronto, Saturday, Feb. 5, 2022. (Nathan Denette/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Borgarstjórinn í Ottawa, höfuðborg Kanada, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna langvarandi fjöldamótmæla í miðborginni. Borgarstjórinn, Jim Watson, segir mótmælaaðgerðirnar komnar úr böndunum og kallar eftir aðstoð ríkisvaldsins til að leysa úr þeim vanda sem skapast hefur.

 

Mótmælin hófust hinn 29. janúar að undirlagi vöruflutningabílstjóra sem mótmæltu bólusetningarskyldu við COVID-19 fyrir þá sem ferðast milli Bandaríkjanna og Kanada, en þau hafa síðan þróast út í almennari mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda.

Mótmælin ógn við öryggi borgarbúa

Vörubílstjórarnir sitja þó enn sem fastast í miðborginni og loka þar fyrir alla umferð með trukkum sínum og tengivögnum, borgarbúum og -yfirvöldum til sívaxandi mæðu. Watson lýsti á sunnudag yfir neyðarástandi sem hann segir „endurspegla hina miklu hættu og alvarlegu ógn við íbúa borgarinnar sem þessar viðvarandi mótmælaðgerðir fela í sér, og undirstrika þörfina á stuðningi frá öðrum lögsagnarumdæmum og ríkisstofnunum.“

Fyrr um daginn sagði Watson að mótmælin væru komin „algjörlega úr böndunum“ og að mótmælendur væru mun fjölmennari en lögreglulið borgarinnar. „Þessu þarf að breyta, við verðum að fá borgina okkar aftur,“ sagði Watson í útvarpsviðtali.

Riddaraliðið til aðstoðar

Lögreglan tilkynnti nýjar aðgerðir til að hindra fólk í að hjálpa mótmælendum við að halda aðgerðum sínum áfram. „Hver sá sem reynir að færa mótmælendum bjargir á borð við eldsneyti og álíka má búast við því að verða handtekinn,“ segir í færslu Ottawa-lögreglunnar á twitter. Yfirvöld hafa þegar brugðist við kalli borgarstjórans og á lögreglan í borginni von á 250 manna liðsauka frá riddaralögreglunni.