Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Íslendingur heldur um lykla að internetinu

Mynd: Pexels / Pexels

Íslendingur heldur um lykla að internetinu

07.02.2022 - 10:06

Höfundar

Nokkrum sinnum á ári kemur hópur fólks saman í hátæknilegu öryggisrými ýmist á vestur- eða austurströnd Bandaríkjanna, til dularfullrar athafnar. Aðeins útvaldir einstaklingar fá að taka þátt í athöfninni, þar á meðal einn Íslendingur, sem allir hafa í fórum sínum lyklana að internetinu.

Athöfnin er á vegum ICANN, stofnunar sem hefur yfirumsjón með mikilvægustu nafnrýmum netsins, IP-talnakerfinu og lénakerfinu. Það er ekki auðvelt að fá aðgang: skilríki, öryggsleit, öryggisnúmer, augnskanni, mannagildra, þríhöfða risi og eldspúandi dreki. Þarna koma saman lyklaverðirnir, fjórtán einstaklingar alls staðar að úr heiminum, sem allir hafa í fórum sínum lykla. Lyklana að internetinu.

Þetta er ekkert grín. Athöfnin er reyndar ekki sú ævintýralega blanda af Lord of the Rings og Mission Impossible sem ég var að reyna að teikna upp. Engir drekar, kyndlar eða dökkir kuflar. Þetta er kannski meira eins og nördaleg blanda af The Matrix og The Office.

Ólafur Guðmundsson hefur unnið við internetið í meira en þrjátíu ár. Og jafnvel áður en internetið sjálft varð til var hann orðinn heillaður af tölvunetum. Hann kynntist þeim fyrst í Háskóla Íslands þar sem hann notaði, eða misnotaði, meðal annars einn forvera netsins, tölvukerfi frá IBM sem nefndist bitnet, semsagt hakkari af gamla skólanum. En nú vinnur Ólafur hjá stóru internetfyrirtæki í Bandaríkjunum og frá árinu 2014 hefur hann í frítíma sínum verið lyklavörður internetsins fyrir ICANN.

Ólafur útskýrir að á samkundunni dularfullu sé tryggt að IP-tölur allra nettengdra tækja gangi í raun að vefþjónum á borð við rúv.is eða vedur.is. Þessar ægimiklu upplýsingar þarf síðan að uppfæra reglulega og er Ólafi og samkundufélögum hans falið að framkvæma uppfærsluna. 

Og notendur internetsins; ríkisstjórnir, stórfyrirtæki, einstaklingar; þurfa að geta treyst þessum uppfærslum.  Uppfærsluathöfnin var þróuð til að vera hafin yfir allan mögulegan vafa. Hún er hálfgert trausts-leikhús, þar sem öryggið er yfirgengilegt og gagnsæið algjört.

Ólafur segir að athafnirnar séu um tveggja klukkustunda langar, þegar þær eru stuttar, og hægt er að fylgjast með þeim í beinu streymi. Það má velta fyrir sér hvort þetta sé æsilegt sjónvarpsefni.

Rætt var við Ólaf Guðmundsson í Lestinni á Rás 1.