Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bréf frá Kim Yong Un hirt af heimili Trumps

07.02.2022 - 16:26
epa08953508 U.S. President Donald Trump, left, and U.S. First Lady Melania Trump, arrive to a farewell ceremony at Joint Base Andrews, Maryland, USA, 20 January 2021. US President Donald J. Trump is not attending the Inaugration ceremony of President-elect Joe Biden. Biden won the 03 November 2020 election to become the 46th President of the United States of America.  EPA-EFE/Stefani Reynolds / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg
Bandaríska skjalasafnið endurheimti í síðasta mánuði gögn sem Donald Trump hafði flutt úr Hvíta húsinu í heimildarleysi við starfslok sín sem forseti Bandaríkjanna. Þetta voru skjöl sem Trump hefði átt að afhenda skjalasafninu þar sem þau vörðuðu forsetaembættið.

Þetta hefur dagblaðið Washington Post eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Skjölin voru geymd á setri Trumps í Mar-a-lago í Flórída. Meðal gagnanna voru samskipti við Kim Jong Un leiðtoga Norður-Kóreu, sem Trump sjálfur kallaði ástarbréf af því að það fór svo vel á með þeim.

Þá voru þarna skjöl sem höfðu verið rifin í tætlur og í einhverjum tilfellum límd saman aftur. Áður höfðu skemmd skjöl verið afhent rannsóknarnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, sem skoðar aðdraganda árásarinnar á þinghúsið fyrir rúmu ári.

Lög um skjalavörslu forsetaembættisins voru sett eftir Watergate-málið sem varð til þess að Richard Nixon þáverandi Bandaríkjaforseti varð að segja af sér árið 1974. Samkvæmt því á forsetaskrifstofan að varðveita öll skilaboð, bréf, minnispunkta, tölvupósta og önnur skrifleg samskipti sem tengjast embættisskyldum forsetans. Ráðgjafar Trumps neita að brot hafi átt sér stað við varðveislu gagnanna.

Starfsmenn í skjalavörslu hafa áður sagt að gagnageymslu hafi greinilega verið ábótavant í forsetatíð Donalds Trumps. Hvorki Trump né skjalasafnið vildu tjá sig um málið við Washington Post þegar óskað var eftir viðbrögðum.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV