
Bréf frá Kim Yong Un hirt af heimili Trumps
Þetta hefur dagblaðið Washington Post eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Skjölin voru geymd á setri Trumps í Mar-a-lago í Flórída. Meðal gagnanna voru samskipti við Kim Jong Un leiðtoga Norður-Kóreu, sem Trump sjálfur kallaði ástarbréf af því að það fór svo vel á með þeim.
Þá voru þarna skjöl sem höfðu verið rifin í tætlur og í einhverjum tilfellum límd saman aftur. Áður höfðu skemmd skjöl verið afhent rannsóknarnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, sem skoðar aðdraganda árásarinnar á þinghúsið fyrir rúmu ári.
Lög um skjalavörslu forsetaembættisins voru sett eftir Watergate-málið sem varð til þess að Richard Nixon þáverandi Bandaríkjaforseti varð að segja af sér árið 1974. Samkvæmt því á forsetaskrifstofan að varðveita öll skilaboð, bréf, minnispunkta, tölvupósta og önnur skrifleg samskipti sem tengjast embættisskyldum forsetans. Ráðgjafar Trumps neita að brot hafi átt sér stað við varðveislu gagnanna.
Starfsmenn í skjalavörslu hafa áður sagt að gagnageymslu hafi greinilega verið ábótavant í forsetatíð Donalds Trumps. Hvorki Trump né skjalasafnið vildu tjá sig um málið við Washington Post þegar óskað var eftir viðbrögðum.