Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ástralir opna dyr sínar fyrir erlendu ferðafólki

epa09734291 Australian Prime Minister Scott Morrison speaks to the media during a press conference in Canberra, Australia, 07 February 2022.  EPA-EFE/LUKAS COCH AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Ástralía verður aðgengileg erlendu ferðafólki á ný hinn 21. febrúar. Scott Morrison forsætisráðherra tilkynnti þetta í morgun. Þar með lýkur einni lengstu lokun lands fyrir erlendum gestum sem gripið hefur verið til í heimsfaraldri kórónuveirunnar, en Ástralir skelltu í lás í mars 2020 í von um að geta þannig sloppið vel og helst alveg við farsóttina. Landið hefur verið nánast alveg lokað síðan,

Áströlum hefur verið bannað að fara úr landi nema með sérstökum undanþágum og engum hleypt inn - nema með sérstökum og giska fáum undanþágum. Síðustu vikur og mánuði hefur þó nokkuð verið slakað á hömlum gagnvart Áströlum sem vilja snúa heim, fólki með langtímadvalarleyfi og erlendum stúdentum.

Þessar tilslakanir - og ákvörðunin um að aflétta nær öllum hömlum frá 21. febrúar - má rekja til þess annars vegar að ríkisstjórnin sá sig knúna til að falla frá núllstefnunni í COVID-málum eftir tilkomu omíkron-afbrigðisins, og hins vegar til hækkandi hlutfalls fullbólusettra landsmanna.

„Það eru liðin nær tvö ár síðan við tókum ákvörðun um að loka landamærum Ástralíu,“ sagði Morrison í framhaldi af fundi ástralska þjóðaröryggisráðsins í morgun, og greindi síðan frá ákvörðuninni um opnun landamæranna fyrir öllum þeim sem hafa gilda vegabréfsáritun og geta sýnt fram á að þau séu fullbólusett.