Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hlé gert á leitinni að horfnu flugvélinni

04.02.2022 - 02:48
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hlé hefur verið gert á leitinni að lítilli fjögurra sæta flugvél sem ekkert hefur spurst til síðan um hádegisbil í gær. Um 300 manna leitarlið var enn að störfum þegar fréttastofa leitaði tíðinda af gangi leitarinnar laust fyrir klukkan tvö í nótt. Leit hefst aftur í fyrramálið.

Auðunn Kristinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar sagði rétt fyrir tvö í nótt að farið væri að fækka í hópi leitarfólks og verið að senda mannskapinn heim. Leit muni svo hefjast á ný um klukkan átta í fyrramálið. Búið er að boða fjölda björgunarsveitafólks til leitar á morgun, alstaðar að af landinu, og býst Auðunn við að um 500 manna leitarlið verði þá til taks.

Erfiðar aðstæður á leitarsvæðinu

Aðstæður til leitar voru orðnar erfiðar þegar ákveðið var að gera hlé á henni; svartamyrkur, brunafrost, lágarenningur og dró í skafla. Þyrlur Landhelgisgæslunnar tóku þátt í leitinni til miðnættis, en þá var þeim flogið til Reykjavíkur til að hvíla áhafnirnar.

Leitarsvæðið líklega stækkað á morgun

Fókus leitarmanna hefur verið á svæðið við sunnanvert Þingvallavatn segir Auðunn; Grafning, Úlfljótsvatn, Sogið, Lyngdalsheiði og nágrenni. Þetta byggist á upplýsingum sem borist hafa um líklega flugleið og þeim litlu  gögnum sem borist hafa frá farsímum þeirra sem í flugvélinni voru.

Hann segir að áfram verði leitað á þessum slóðum á morgun en að leitarsvæðið verði líkast til stækkað til norðurs og austurs, að Skjaldbreiði og nágrenni.

Fernt var um borð í flugvélinni sem leitað er að, íslenskur flugmaður og þrír erlendir ferðamenn. Vélin var í útsýnisflugi þegar hún hvarf. Auðunn segir að þegar allt sé talið hafi 746 manns tekið þátt í leit gærdagsins, sem er ein sú umfangsmesta sem  gerð hefur verið hér á landi í seinni tíð.