Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hátt í fimm hundruð manns til leitar í dag

04.02.2022 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Björgunarsveitarfólk, lögreglan og Landhelgisgæslan gera sig nú klár til leitar að nýju að lítilli fjögurra sæta flugvél sem ekkert hefur spurst til síðan um hádegisbil i gær. Hlé var gert á leitinni um klukkan tvö í nótt. Fernt var um borð, íslenskur flugmaður og þrír erlendir ferðamenn. Flugvélin var í útsýnisflugi þegar hún hvarf. Leitin er ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið hér á landi í seinni tíð.

Auðunn Kristinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, sagði rétt fyrir klukkan sjö í morgun að björgunarsveitarfólk alls staðar að af landinu hafi verið boðið til leitar í dag. Vonast er til að um 500 manns verði við leit í dag, lögreglufólk, landhelgisgæslan og björgunarsveitir. „Flestar sveitir voru kallaðar inn um þrjú, fjögur í nótt og svo erum við að byrja aftur um 8 leytið. Fólk er svona að tínast á suðvesturhornið.“

Auðunn segir björgunarsveitarfólk einskis vísari síðan leit var hætt í nótt. Enn sé unnið eftir gögnum úr gsm sendum og leitarsvæðið byggir á því. Fókus leitarmanna hefur verið á svæðið við sunnanvert Þingvallavatn; Grafning, Úlfljótsvatn, Sogið, Lyngdalsheiði og nágrenni en í dag verður leitarsvæðið stækkað til norðurs og austurs, að Skjaldbreið og nágrenni. 

Auðunn segir að veðrið líti ágætlega út, lægja eigi með morgninum og skilyrði til leitar séu ágæt. Leitað verður bæði í landi og lofti.  „Þyrlurnar hjá okkur verða komnar um tíu leytið, önnur um tíu leytið og hin um ellefu og svo eru einkaaðilar sem ætla að koma inn í þetta líka með okkur.“