Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Upplausn eftir afsögn á Norður-Írlandi

03.02.2022 - 18:12
Paul Givan fyrsti ráðherra norður-írsku stjórnarinnar fyrir fram þinghúsið í Stormont
 Mynd: DUP
Paul Givan, fyrsti ráðherra eða forsætisráðherra Norður-Írlands, sagði af sér á fimmta tímanum. Ástæða afsagnar Givens er óánægja með viðauka við Brexit-samninginn um að tollskoða þurfi vörur sem fluttar eru frá Bretlandi til Norður-Írlands. Flokkur Givens, Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, DUP, er eindregið andvígur Norður-Írlands viðaukanum.

Stjórnin lömuð

Með afsögn Givens er stjórn Norður-Írlands lömuð því stjórnskipan héraðsins gerir ráð fyrir að stærstu flokkar sambandssinna og lýðveldissinna starfi saman í stjórn. Þessir flokkar eru DUP og Sinn Fein. DUP nýtur nánast eingöngu stuðnings mótmælenda og yfirgnæfandi meirihluti kjósenda Sinn Fein eru kaþólikkar.  Samkvæmt stjórnskipan sem samþykkt var er samið var um frið á föstudaginn langa 1998 leiðir afsögn fyrsta ráðherra til þess að staðgengill hans, Michelle O'Neill, leiðtogi Sinn Fein, missir sitt embætti. 

Fjallað var um stjórnmál á Norður-Írlandi í Speglinum.