Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Umfangsmikil leit að týndri flugvél - fjórir um borð

03.02.2022 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæsla Íslands
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og á þriðja hundrað manns eru nú við leit að lítilli fjögurra sæta flugvél sem ekki hefur náðst sambandi við. Hún fór frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum í morgun og síðasta vitaða staðsetning var við Heiðmörk. Í vélinni eru fjórir, einn flugmaður og þrír farþegar. Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi hafa verið kallaðar út.

Ásgeir Erlendsson segir við fréttastofu að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi farið í loftið fyrir tíu mínútum eða 14:10 og öllum steinum verði velt við í leitinni. Nú á þriðja tímanum var önnur þyrla gæslunnar einnig kölluð út til að aðstoða við leitina. Ásgeir segir unnið að því að þrengja leitarsvæðið, sérstaklega umhverfis höfuðborgarsvæðið og austan við það.

Síðast er vitað um vélina suður af Þingvallavatni þegar klukkan var 11:45

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að þeir séu að grennslast fyrir á flugvöllum og að búið sé að ræsa út björgunarsveitir í Árnessýslu.  

 Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við fréttastofu að björgunarsveitir af Suðurnesjum, Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu hafi verið kallaðar út. Leitarsvæðið sé enn mjög stórt en verið sé að vinna ákveðna rannsóknarvinnu til að reyna þrengja hringinn.

Á þriðja hundrað manns eru að sinna leitinni; lögreglumenn, björgunarsveitarmenn og starfsmenn Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þetta fjögurra sæta vél og eftir því sem fréttastofa kemst næst er neyðarsendir í henni. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV