Mikið hefur gengið á innan Eflingar undanfarna mánuði, fyrir áramót lýsti starfsfólk skrifstofu félagsins yfir óánægju með starfshætti Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns sem sagði af sér í kjölfarið og það gerði líka Viðar Þorsteinsson sem var framkvæmdastjóri.
Á næstunni verður kosinn nýr formaður, þrjú eru í framboði, meðal þeirra er Sólveig Anna.
Í úttekt á starfsumhverfinu á skrifstofunni sem kynnt var í dag segir meðal annars að framganga þeirra hafi valdið óöryggi og vantrausti. Þá hafi starfsmönnum orðið tíðrætt um kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti af hálfu framkvæmdarstjóra í skjóli formanns og að jarðvegur hafi verið fyrir einelti.
Viðar segir úttektina vera vopn starfsfólks á skrifstofu Eflingar gegn þeim tveimur. „Þetta eru ásakanir sem ég hef aldrei fengið sjálfur til mín, ég hef ekki fengið vitund um að það lægju fyrir eineltiskvartanir um mig og heldur ekki kvartanir um nokkuð sem væri hægt að kalla kvenfyrirlitningu.“
Þú sagðir upp störfum í byrjun nóvember og fylgdir þar Sólveigu Önnu formanni sem sagði upp um svipað leyti. Þá sagðir þú að ofbeldismenning ríkti á skrifstofu Eflingar - varst þú ekki hluti af henni miðað við niðurstöður þessarar úttektar? „Nei, það tel ég ekki vera og ég bendi á að starfsfólkinu standa til boða eðlileg og fagleg úrræði til að leggja fram kvartanir og athugasemdir ef um eitthvað slíkt er að ræða hjá öðrum vinnufélögum.“
Þú talar um að fara með í eðlilegan farveg - starfsfólk talar um að það hafi ríkt ógnarstjórn á skrifstofunni - er það ekki bara ástæðan; að það sá ekki þennan eðlilega farveg? „Ég á bágt með að skilja það. Þeir farvegir voru svo sannarlega til staðar.“
Verði Sólveig Anna kjörin formaður, myndir þú taka aftur við starfi framkvæmdastjóra ef þér yrði boðið það? „Það er of snemmt að segja til um eitthvað slíkt.“