Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Einangrun verði stytt og stefnir að afléttingum fyrr

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Heilbrigðisráðherra segir að honum beri skylda til að stefna að því að hægt verði að aflétta sóttvarnatakmörkunum fyrr en 14. mars og hann voni að svo verði. Einangrun verður stytt úr sjö í fimm daga.

Þið ætlið að stytta einangrun?

„Já, það er til skoðunar að stytta úr sjö í fimm og það er til samræmis við það sem aðrar þjóðir hafa gert“ segir heilbrigðisráðherra.

Íslensk yfirvöld gætu orðið þau síðustu á Norðurlöndunum til að aflétta öllum sóttvarnaaðgerðum, væri ekki hægt að fara hraðar í afléttingar?

„Fyrst vil ég nú segja að það yrði nú hættulegt ef maður ætlaði að fara í einhverja keppni í því og það gæti aldrei orðið sjálfstætt markmið“ segir Willum.

Dagsetningarnar í áætluninni ekki heilagar

Willum segir að í áhættumati sóttvarnalæknis sé bent á að útbreiðslan sé enn mikil og því þurfi að gæta þess að hún verði ekki of hröð. Margir samfélagslega mikilvægir innviðir eins og hjúkrunarheimili séu til marks um það. Hann segir dagsetningar sem settar séu fram í afléttingaráætlun ekki vera heilagar.

Þannig að þú sérð fyrir þér að það verði hægt að aflétta fyrr en 14. mars?

„Já, það er óskandi og mér ber bara skylda til þess að horfa þannig á það en ég verð líka að hlusta á okkar helstu sérfræðinga í þessu“ segir Willum.

Samstaða innan ríkisstjórnarinnar

Samt segir heilbrigðisráðherra að flest sé að vinna með landsmönnum þessa dagana en tryggja þurfi að samfélagið ráði við stöðuna um leið og öllu verði aflétt. Þrátt fyrir gagnrýni þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir Willum samstöðu í ríkisstjórn um þessi skref.

„Þegar við tökum ákvörðun þá er líka jafn mikilvægt að við stöndum saman að því að þær gangi upp“ segir heilbrigðisráðherra.