Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Verbúðin sigldi verðlaunum í höfn í Gautaborg

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV

Verbúðin sigldi verðlaunum í höfn í Gautaborg

02.02.2022 - 16:25

Höfundar

Íslenska þáttaröðin Verbúðin, sem sýnd hefur verið við mikla vinsældir á RÚV, hlaut í dag verðlaun fyrir besta handritið í sjónvarpi á hinni virtu Gautaborgarhátíð. Mikael Torfason, einn af handritshöfundunum, segir það koma á óvart hversu góðar viðtökur þættirnir hafa fengið erlendis.

Keppinautar Verbúðarinnar í verðlaunaflokknum voru ekkert slor. Til að mynda hin danska Lone Scherfig og nýja þáttaröðin hennar;  Det største. Scherfig hefur landað verkefnum í Hollywood og gerði meðal annars hina rómuðu An Education sem tilnefnd var til Bafta-verðlauna. 

Þrátt fyrir mikla velgengni Verbúðarinnar voru þau Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Mikael Torfason ekkert alltof sigurviss þegar þau héldu til Gautaborgar „Þetta var hörð samkeppni og það eru ótrúlegar þáttaraðir sem voru tilnefndar þarna,“ segir Nína sem viðurkennir samt, ekki kannski fúslega, að hún hafi talið þau eiga góðan möguleika. „Þetta er svo fullorðins, þessi verðlaun því manni líður ennþá eins og krakka í þessum heimi.“

Mikael segir viðtökurnar við Verbúðinni hafa komið sér á óvart. Þættirnir segi sér-íslenska sögu sem hafi kannski ekki mikla alþjóðlega skírskotun. „Þetta var kannski ekki eitthvað sem maður átti von á. Vinsælasta efnið hefur yfirleitt verið glæpasögur sem allir geta speglað sig í.“  Verðlaunin í dag séu  sérstaklega ánægjuleg því þarna sé verið hampa handritinu.  

Verðbúðin hefur fengið mikið lof hér á landi, ekki síst fyrir að fanga vel  tíðarandann sem sveif yfir vötnum á níunda áratug síðustu aldar; Hemmi Gunn, Sodastream og afléttingu bjórbannsins.   „Þegar maður er að búa eitthvað til er engin hugsun sem segir að þetta verði geðveikt vinsælt. Þetta er eins og að fara í búddaklaustur, maður fer í hálfgert zen-ástand og er ekkert einblína á hlutina út fyrir það.“

Það sé ekki fyrr en komið sé að frumsýningu að stressið komi og „maður fer að velta því fyrir sér hvort þetta sé algjört kjaftæði sem maður var að búa til. En á meðan þessu stendur er ekkert svigrúm til að hugsa eitthvað lengra. Maður gerir þetta af því að maður brennur sjálfu fyrir þessari sögu.“

Undir það tekur Mikael, sem kýs að kalla sig gestaleikara í Vesturports-klíkunni. „Þau hafa lagt svo mikla vinnu í þetta og það tekur mörg ár að gera þáttaröð eins og þessa. Maður verður því að velja verkefnið mjög vel og ef þú brennur fyrir því er öll þessi vinna þess virði.“

Heilræði Gísla Arnar í lok samtalsins eru þau að „þetta sé alltaf spurning hvort þú farir inni í hjónabandið af kærleika eða af því að mamma þín og pabbi sögðu þér að gera það.“

Þrenningin var annars að leita sér að bar til að geta sest niður, skálað og brosað framan í hvert annað. Í kvöld tekur síðan við matarboð þar sem gestirnir eru í smóking og síðkjól. Það er víst eitthvað lítið um rauða dregla þessa dagana.